06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

34. mál, lögskráning mannanafna

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Um þetta ljósmóðurhjal háttv. 2. þm. S.-M. (J. Ó.) er það að segja, að hann er fróður maður og veit það, að Sókrates var vanur að líkja sér við ljósmóður. Hann var nú kunnur að því að leiða menn að sannleikanum, en þeir eru ekkert líkir menn. Þess háttar ljósmóðurstörf verður þessi háttv. þm. aldrei bendlaður við, nema ef hann vill leiða einhverja í gagnstæða átt við Sókrates. Ónýtist því fyrir honum samlíkingin, þótt hann hafi langt til hennar seilst.

Hann var að tala um það heilmikla langloku, að hægra væri að finna nöfn manna í skrám, væri þeim raðað eftir feðranöfnum og taldi þess mörg dæmi. En þá fyrst er örðugt að finna menn á slíkum skrám, er menn vita skírnarnöfn þeirra, en ekki hvers synir þeir eru. En það er þó miklu algengara, en hitt, sem hann taldi. Þá yrðu menn að leita gegn um alt stafrófið í hvert sinn.

Út af því, sem hinn háttv. þm. fann að frv. skal eg hugga hann með því, að ekki skal standa á mér, að taka upp frv. hans sjálfs frá 1881, og þá fundust honum engin vandræði í þessu, né heldur að banna að skíra konur syni einhverra manna. Hann talaði mikið um útlendinga, en það sjá allir, að hagræði er að því að hafa landlæg og útlend ættarnöfn fyrir framan, enda ófrelsi, ef útlendingar fá ekki að hafa þetta eins og þeir eru vanir; það myndi háttv. þm. sjálfur finna, ef hann væri erlendis og fólkið færi að kalla hann einhverju nafni, sem enginn kannaðist við. Það væri ofbeldi, og það vildum við ekki setja í lög. Hitt er rétt, að það mætti tiltaka, hve lengi það mætti haldast. Það er því svo langt frá, að hér sé verið að beita harðræði, að það er ekki nema andhælisskapur að finna sér þetta nokkuð til.

Þó að eg í ræðu minni hafi farið dálítið lengra en frv. sjálft, þarf háttv. 2. þm.

S.-Múl. (J. Ó.) ekki að vera að fjargviðrast út af því. Eg hefi tekið það fram, að gjarnan mætti gefa út lög í þá átt, að banna mönnum að bera annað nafn en skírnarnafn sitt og mun eg vera fús til samvinnu við háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) í því efni.

Að umræðum loknum vil eg svo leyfa mér að stinga upp á þriggja manna nefnd í málið.