06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

34. mál, lögskráning mannanafna

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er einkennilegt með háttv. flutningsm. þessa frumv., að þeir tala um alla heima og geima, nema bara ekki um frumv. sjálft. Þeir ætla að nota það sem vopn á móti mér, að eg bar fram hér á þingi 1881, frumvarp þess efnis, að mönnum skyldi ekki leyft að breyta nöfnum sínum alveg út í bláinn. Þetta er alveg rétt. Eg bar það frumvarp fram og eg er samdóma því enn þann dag í dag. Hugsum okkur t. d. mann, sem heitir Meyvant, hann tekur upp á því einn góðan veðurdag að kalla sig Eymund. Slíkt ætti að vera óleyfilegt. Það er ekki til annars en að rugla heimildum, svo að erfiðara verður fyrir þá, sem eiga hann t. d. um skuldir að krefja, að hafa upp á honum. Það er alveg eins með dæmið, sem háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) nefndi: Maður, sem heitir Stefán Jónsson, tekur upp á því að kalla sig Loðmfjörð. Slíkt á ekki að eiga sér stað. Hvað það snertir, að skíra upp jarðir, þá er það alsendis ólöglegt. Öll bæjarnöfn eru löglega skráð í jarðabókinni frá 1861. Það er lögtekin bók og breytingar einstakra manna á nöfnum þeim, sem í hana eru skráð, eru ólögmætar. T. d. er það fullkomin lögleysa að kalla Hvammkot Fífuhvamm eða Grafarkot Grafarholt. Lögheitið er í jarðabókinni frá 1861.

Þetta er nú alt saman mikið rétt, en það kemur ekki minstu vitund við því frumvarpi, sem nú er verið að bera hér fram, því að þess efni er ekki neitt annað, en að banna starfsmönnum að raða nöfnum í þeirri röð, sem þeim er hentast og greiðvirkast. Eg vil líka leyfa mér, að benda á eina afleiðingu, sem það hefir í för með sér, ef frumv. þetta verður samþykt. Með því yrði kastað í sjóinn um 8000 kr., eða meiru, sem eytt hefir verið í að skrásetja allar bækur landsbókasafnsins. Þær hafa verið skrásettar á þann hátt, sem tíðkast í öllum heiminum og er undarlegt, að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), sem þó er einn í þeirri nefnd, sem hafði umsjón með þessari skrásetningu skuli nú fyrst koma með þessa breytingu. Það er skrítið að hann vill nú gera það að engu, sem hann áður hefir samþykt. (Jón Þorkelsson: Hefi aldrei samþykt það, það var byrjað á því, áður en eg kom í nefndina). Háttv. þm. átti þá að fá því breytt. (Jón Þorkelsson: Gat það ekki). Ónei — reyndi það víst aldrei. Jæja! En þetta yrði samt allkostnaðsöm breyting.

Stundum er það líka, að menn breyta ekki sjálfir nöfnum sínum, heldur gera aðrir það í þeirra stað. Eg var nýverið að skrifa upp hjá mér skrá yfir nefndir hér í deildinni, og hverjir væru í hverri. Eg hafði af hending fyrir mér »Ísafold« og fann þar nokkrum sinnum Bjarna Jónsson frá Vogi. En eftir »Föstudaginn langa«, þegar vantraustslýsing var samþykt hér í Nd., hverfur þetta nafn, en í staðinn kemur »Vog-Bjarni«. Slíkt er algerlega óheimil breyting. Annars skal eg ekki fjölyrða um þetta. Eg vona, að málið verði strádrepið og ekki einu sinni sett í nefnd. En verði nefnd sett í það, vildi eg leggja til, að það yrði 5 manna nefnd og álít eg þá heppilegast, þar sem 5 Jónar eru í deildinni, að það yrði »Fimmjóna« nefnd.