04.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

35. mál, bændaskóli á Eiðum

Flutnm. (Jón Jónsson 1. þm. N.-Múl.):

Frv. þetta er framkomið út af því, að sýslunefndir Múlasýslna samþyktu að bjóða landssjóði Eiðaskóla með öllum eignum skólans gegn því, að halda þar uppi bændaskóla.

Eins og kunnugt er, er það hið mesta áhugamál vor Austfirðinga að hafa búnaðarskóla eystra, en erfitt veitir að hafa hann í lagi. Bændaskólalögin frá 1905 slógu því föstu, að bændaskólar skyldu vera tveir á landinu, annar á Suðurlandi, en hinn á Norðurlandi og skyldi sá síðartaldi vera á Akureyri. Nú atvikaðist svo, að Hólaskóli var aldrei fluttur, og þar er nú skólinn fyrir Norðurland. Oss Austfirðingum þykir erfitt að sækja til Hóla, en þykir sárt að leggja niður vorn eigin skóla. Þau ráð, sem fram hafa komið, til að dubba upp á skólann, hafa reynst erfið í framkvæmdinni, því að tvö sýslufélög eiga skólann og skiftar skoðanir, hver ráð eigi að hafa við hann. Þess vegna hefir þetta frumv. komið fram, og er ætlun vor með því, að tryggja oss skólann áfram, og tálma því, að hann mæti nokkurum þeim hindrunum, sem dregið geti úr framkvæmdum hans.

Skólinn á töluverðar eignir, rúmlega 60 þús. kr. Það virðist því ekki ósanngjarnt skilyrði fyrir því, að landssjóður fái fullan eignar- og afnotarétt á eignum skólans, að landið taki að sér að halda þar uppi bændaskóla samskonar og þeim tveim, sem fyrir eru.

Eg vænti að þingið taki þessu máli vel. Eg býst við að það verði falið nefnd til athugunar, og geri ráð fyrir að það gangi til landbúnaðarnefndarinnar. Um þetta vænti eg uppástungu úr annari átt. Eg vonast fastlega eftir, að þeir háttv. þingm., sem aðhyllast stefnu milliþinganefndarinnar frá 1905, taki liðlega í málið, í fyrsta lagi sökum þess, að Hólaskóli var ekki fluttur, í öðru lagi við athugun á því, hve hart er að oss gengið, ef hvorki er samþykt að gera skólann að landseign, né heldur veittur svo ríflegur styrkur til hans, að hann geti komið að fullum notum. Þetta er sú eina mentastofnun vor Austfirðinga, og er þjóðleg stofnun, því að skólinn er í blómlegu héraði.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira um málið. Vænti eg góðs fylgis hinnar hv. þingd.