01.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

125. mál, eiðar og drengskaparorð

Lárus H. Bjarnason:

Eg vaknaði með þeim góða ásetningi í morgun, að halda ekki neinar ræður í dag, en þegar hv. framsögum. fór að hæla fráfarandi stjórn fyrir góðan undirbúning þessa máls, gat eg ekki á mér setið, enda er frumvarpið engan veginn gallalaust, hvorki úr höndum stjórnarinnar né hv. nefndar.

Fyrst og fremst er nú málið á frumv. hvergi nærri gott, t. d. er orðalagið „opinber staða“ hvergi nærri heppilegt; það hugtak mætti færa í miklu fallegri búning. En þó vakti sérstaklega 5. greinin eftirtekt mína. Samkv. henni á maður að „færa sönnur á, að hann hafi eigi verið í neinu trúarfélagi hér á landi“ vilji hann komast undan svokölluðum „pasteiði“, en það er æði erfitt, ef ekki beint ómögulegt að sanna það, sem er neikvætt. Til þess í hérumræddu falli að geta notað drengskaparorð í stað eiða, þyrfti maðurinn að smala saman vottorðum frá öllum prestum og trúarflokkaforstöðumönnum hér á landi, lútherskum, kaþólskum, Mormónum og Methodistum m. fl. Annars stendur frv. þetta í svo nánu sambandi við frv., sem nýlega var lógað hér í deildinni, frv. um utanþjóðkirkjumenn, að ástæða hefði verið til að athuga þá afstöðu nánar en nefndin virðist hafa gert.