24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

132. mál, stofnun húsmæðraskóla

Jóhannes Jóhannesson:

Eg sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um breytingartillöguna á þgskj. 681, þar sem háttv. framsm. (P. J.) hefir skýrt réttilega frá því, að tilgangurinn með henni sé, að losa sýslunefndirnar við að halda sameiginlegan fund til þess að kjósa 1 mann í stjórn skólans. Hefir slíkt kostnað í för með sér, sem hægt er að sneiða hjá með breytingartillögunni. Og hins vegar er það eðlilegt, að stjórnarráðið sjálft kjósi formanninn, úr því hér er um landsskóla að ræða.

Breytingartillagan á þgskj. 702 er fremur til skaða en bóta, þar sem hún fer fram á, að búið megi ekki reka á kostnað landssjóðs. Það verður að vera heimilt fyrir landssjóð að reka búið, eins og á sér stað með bændaskólana. Nú er búið selt á leigu og slíkt mundi einnig verða gert framvegis, þótt þessi heimild væri í frumvarpinu. Og mundi hún ekki verða notuð, nema ef nauðsyn kræfi. Eg er breytingartillögunni mótfallinn og vona, að hún verði feld.