08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

50. mál, landsbankalög

Flutningsm. (Björn Kristjánsson):

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) áleit margt athugavert við þetta frv., en mintist víst einungis eða aðallega á hættuna við það, að alþingi væri með frv. svift eftirliti með landsbankanum. Það er um þetta frumv. að segja, að það er alveg samhljóða frv., sem samþykt var hér í deildinnl á seinasta þingi, en var limlest í Ed. og náði því ei fram að ganga. Mig minnir ekki betur en háttv. 2. þm. S.Múl. (J. Ól.) hafi verið með því seinast. Það er því undarlegt, að hann skuli hafa svona mikið á móti því nú. Það er rangt að segja, að alþingi sé svift öllu eftirliti með landsbankanum, því að samkvæmt 22. gr. stjórnarskrárinnar, getur þingið altaf látið rannsaka hag bankans. Yfirleitt getur alþingi látið rannsaka, hvað sem það vill. Eftirlitið er því eigi horfið, þótt gæzlustjórarnir falli burt. Enda höfðu þeir svo mörgum öðrum störfum að gegna, að þeir gátu ekki haft neitt verulegt eftirlit. Til þess hefðu þeir þurft að vera allan daginn. Þess vegna er stungið upp á nýjum bankastjóra, vinnandi manni, sem ekki hefði öðrum störfum að gegna, því að það eitt getur komið að haldi, og gerir tryggara, að alt sé í lagi, heldur en þótt gæzlustjórar séu einn tíma í bankanum á dag. Þeir geta ekki fylgst með í neinu, svo í lagi sé, og það átti þingið að vita fyrir löngu.

Að vísa málinu til bankarannsóknarnefndarinnar þykir mér kynlegt. Hún hefir ekkert um þetta að sýsla. Hitt virðist sjálfsagt og liggja beinast við, að vísa því til peningamálanefndarinnar.