08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

50. mál, landsbankalög

Flutnm. (Björn Kristjánsson):

Það er undarlegt, að ef eitthvert frumv. landsbankanum viðvíkjandi kemur fram hér á þingi, þá er það strax sett í samband við frávikningu gæzlustjóranna. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði að frv. þetta stæði í nánu sambandi við það, að þingið ætlaði nú aftur að setja gæzlustjórana inn í embætti þeirra. Í fyrsta lagi er það nú alveg rangt, að þingið setji gæzlustjórana inn í embættin, því að það er stjórnin, sem það gerir (Hannes Hafstein: Hver velur þá?) Það gerir þingið, en það er stjórnin, sem framkvæmdarvaldið hefir og setur þá inn í embættin. Í öðru lagi er alveg rangt, að sjá nokkurt samband hér á milli, því að háttv. 1 þm. Eyf. (H. H.) er það fullkunnugt, að sama frumv. kom hér fram á seinasta þingi, áður en nokkrum manni hafði komið frávikning gæzlustjóranna til hugar. Hvað gæzlustjórana snertir, þá eru þeir handónýtir geta ekkert eftirlit haft, þann litla tíma, sem þeir starfa, og eg get lýst því yfir, ef menn vita það ekki, að þeir geta ekkert gagn gert, annað en hirða launin. Þess vegna leggur frumv. til, að þeir séu afnumdir. Bankinn þarf starfskrafta, menn, sem vinna allan daginn, eins og núverandi bankastjórar, og hafa ekkert annað starf á hendi.

Að vísa þessu máli til nefndar, sem hefir alt annað hlutverk, en að fást við peningamál, er alveg fráleitt, og í því felst lítil kurteisi frá tillögumönnum. Hvað rannsókn á hag bankans, fimta hvert ár, snertir, þá er það að eins gert til þess, að þing og þjóð geti verið örugg um, að bankanum sé vel stjórnað. Bankastjórnin hefir engan persónulegan hag af þessu, því eins getur verið, að landstjórnin sé henni óvinveitt, þegar rannsókn fer fram, en bankastjórnin sér fulla nauðsyn á þessu, og ekki einungis að landsbankinn sé rannsakaður almennings vegna, heldur líka aðrir bankar og sparisjóðir. En vegna þess, að bankinn er opinber stofnun, eign þjóðarinnar, álítum við sérstaklega þessa rannsókn bráðnauðsynlega tryggingu fyrir þing og þjóð, og aðhald fyrir bankastjórnina. Eg hélt annars ekki, að svona mikill þytur gæti orðið út af þessu, þegar við 1. umræðu málsins.