08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (2330)

50. mál, landsbankalög

Magnús Blöndahl:

Mér finst kenna nokkuð mikillar viðkvæmni í orðum þeirra hv. þm., sem móti frumv. þessu hafa talað, og ekki laust við hita, sem allir ættu að geta útrýmt. Menn ættu að líta á málefnið sjálft, en ekki á persónur. Fyrir mér er það aðalatriðið, hvort sé að tryggja betur stjórn bankans en áður hefir verið, og skoðun mín á þessu máli hefir ekki breytst síðan á seinasta þingi. Eg álít nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi því, sem nú er á stjórn bankans, því að þó að það hafi ef til vill verið nægilega gott 1885, þá er svo langt síðan og störf bankans nú orðin margfalt umfangsmeiri og margbrotnari en þau voru í byrjun, og getur því alls ekki talist fulltryggilegt lengur.

Það hefir verið talað mikið um, að eftirlit það, er þessir tveir gæzlustjórar hafa með bankanum, sé nægilegt, og að skýrsla þeirra um hag hans sé fullnægjandi. En ef sanngjarnlega er litið á þetta, hljóta allir þeir, er eitthvert skyn bera á þetta mál, að játa, að þetta eftirlit getur alls ekki verið fullnægjandi lengur, og það af þeirri ástæðu, að starf það, er gæzlustjórunum er ætlað að leysa af hendi á jafnstuttum tíma, er of mikið. Þeim er ætlað að starfa 1 —2 tíma á dag í bankanum. En það liggur í hlutarins eðli, að þeir geta ekki, þótt hæfileikamenn væru, leyst starfið fulltryggilega af hendi á svona stuttum tíma. Þar eð umsetning bankans hefir farið og fer vaxandi, hefir starf þeirra vaxið þeim yfir höfuð. Eg held líka, að vér finnum hvergi slíkt bankafyrirkomulag í nágrannalöndunum. Það var bent á þetta á síðasta þingi. Eg hygg, að allir séu einhuga um, að nauðsynlegra sé að tryggja svo stjórn bankans og eftirlitið með honum, sem frekast er unt, heldur en að þrátta um, hvort setja eigi gæzlustjórana inn í starf þeirra aftur.

Það er þó ýmislegt í frv. þessu, sem er ábótavant, og mun eg ekki greiða atkv. með því óbreyttu. En það má auðvitað laga það svo, að það verði viðunandi, og ætti hver og einn þingdeildarmanna að stuðla að því. Eg skil ekki í þeim háttv. þm., sem vilja vísa frv. þessu til bankarannsóknarnefndarinnar. Slíkt er algerlega rangt. Það ber að vísa frumv. til peningamálanefndarinnar, eða, ef menn kjósa heldur, að skipa sérstaka nefnd í það, en það tel eg þó óþarft.