08.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

50. mál, landsbankalög

Flutnm. (Björn Kristjánsson):

Háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) tók fram ýmislegt af því, er eg ætlaði að segja, svo eg álít óþarft að endurtaka það. En þm. S-Þing. (P. J.) hélt því fram, að frv. væri komið fram vegna frávikningar gæzlustjóranna. En það er undarlegt, að halda slíku fram, þar sem flestar breytingar þær, sem frv. gerir á gildandi lögum, standa ekki í nokkru sambandi við frávikningu gæzlustjóranna. Eða í hvaða sambandi geta t. d. ákvæðin um seðlaútgáfu bankans eða launakjör gjaldkera staðið við frávikningu gæzlustjóranna? Þetta eina atriði, sem háttv. þingm. hneykslast svo mjög á, að afnema gæzlustjórana, kom fram á síðasta þingi, áður en bankarannsóknin var fyrirskipuð, og getur því ekki átt neina rót að rekja til frávikningar gæzlustjóranna. Hér er því haldið fram sömu stefnu, sem á síðasta þingi. En kjósi háttv. deild að breyta þeirri stefnu nú, þá er það á hennar valdi. En eg álít, að gæzlustjórarnir séu bankanum til engra nota og engin trygging fyrir því, að honum sé vel stjórnað þeirra vegna. Eða hafa þeir nokkurn tíma skýrt þinginu frá því ólagi, sem bankinn hefir verið í? Nei, af því að þeir hafa ekki vitað af því, þar sem þeir venjulega sátu ekki í bankanum, nema 1—2 klukkutíma á dag, og störfuðu ekki að öðru en lánveitingum og víxlakaupum, enda ekki við því að búast, að þeir á svo skömmum tíma gætu gefið sig við fleirum störfum, eða haft nokkuð eftirlit með bankanum yfirleitt. En þó að gæzlustjórarnir verði feldir burtu, missir þingið samt ekki eftirlit með bankanum, þar sem það velur annan endurskoðanda hans, eða ef til vill báða. En breytingin á stjórn bankans er nauðsynleg, til þess að hann geti notið trausts almennings hér á landi og viðskiftamanna sinna í öðrum löndum. Þetta er vort markmið, og annað ekki. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) áleit, að rannsókn á bankanum 5. hvert ár, gæti ekki veitt eins mikla tryggingu, eins og að hafa gæzlustjórana, en því fer fjarri, því að gæzlustjórarnir geta ekki haft neitt verulegt eftirlit með bankanum, eins og margtekið er fram, en aftur á móti yrði rannsókn á honum 5. hvert ár nægileg trygging. Eg óska, að málinu verði vísað til peningamálanefndarinnar, enda þótt óviðfeldið sé, að keppinautur landsbankans sitji í nefnd, er fjallar um mál hans.