10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

52. mál, veðdeildarlagabreyting

Flutningsm. (Björn Kristjánsson); Eg skal svara háttv. þm. Vestm. (J. M.) þannig, að það er okkar meining, að ákvæðið nái til allra, einnig til þeirra, sem lán hafa fengið. Því næði það ekki til þeirra, sem þegar hafa tekið lán, þá væri mjög lítið gagn að þessu ákvæði. Það er ráð í þessu atriði eins og oftar, að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann. Það hefir verið gerð tilraun til þess að bjarga þessu við, en sú tilraun hefir ekki hepnast. Veðdeildin hefir enga peninga nema varasjóð og hann má hún ekki brúka til þess að kaupa fyrir þessi veðdeildarbréf. Það er heldur ekki hægt að skylda bankann til þess að kaupa bréfin fyrir fullvirði, enda vantar hann fé til þess. Mér þætti vænt um að fá að heyra, hvernig háttv. þm. Vestm. (J. M.) hugsar sér að fyrirbyggja þetta?

Eg held mér sé óhætt að fullyrða, að þess konar ákvæði eru ekki almenn annarsstaðar í veðdeildarlögum. Ef bréfin hafa lágan »kurs«, þá gæti það orðið til þess að fjárbrallarar færu að kaupa bréfin fyrir sem lægst verð, og að setja þau niður í verði, til þess að hagnast sem mest á þeim, sem lægi opið fyrir að gera, þegar markaður væri fyrir þau í veðdeildinni fyrir fullvirði.

Eg álít nú, að það sé nauðsynlegt, að vísa málinu til nefndar og þá finst mér sjálfsagt að vísa því til peningamálanefndarinnar.