10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

52. mál, veðdeildarlagabreyting

Flutningsm. (Björn Kristjánsson):

Það getur verið, að háttv. þm. Vestm. (J. M.) hafi hér veðdeildarreglugerð með þessum ákvæðum. En útdráttarákvæði landsbankaveðdeildarinnar eru þannig löguð, að þau bréf, sem eiga að ganga til útlanda, má ekki draga frá þeirri summu. Hinum háttv. þm. hefir þá yfirsést þetta ákvæði í veðdeildarlögunum:

»Veðdeildin má og á þann hátt og með þeim fyrirvara, er áður segir, innleysa bankavaxtabréf í stærri stíl«. Fyrirvarinn, sem hér er átt við, sést af lagagreininni á undan þessari setningu. Frumv. á að ná fram að ganga, eins og það er. Vegna þeirra, sem bréf eiga í útlöndum, álít eg ekki rétt að breyta lögunum á annan hátt en þennan. Að vísu kemur það mjög sjaldan fyrir, að menn fái bréf annarsstaðar til þess að borga með lánin, en það hefir skeð í stórum mæli eitt sinn og getur skeð oftar.

Eg vona, að menn styðji frumv. og eg er ekki mótfallinn því, að nefnd sé sett í málið.