22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

68. mál, gerðardómur í brunabótamálum

Framsm. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) kom aftur með þá mótbáru í móti þessu frv., að það mundi fæla vátryggingarfélögin burt úr landinu. Eg er hræddur um, að hv. þm. hafi alls ekki heyrt þau orð mín, sem eru sönn, að beztu félögin, sem hér eru, hafa sjálf skuldbundið sig til þess að leggja þau mál, sem ágreiningur rís út af, í gerð. Hví ættu þau þá að fælast okkur, þótt við fyrirskipum það með lögum, sem þau sjálf hafa heimilað? Eg get ekki séð það og eg hygg, að flestir aðrir sjái það ekki heldur, hvaða hvöt þau hafa til þess. Eg held, að þetta sé að eins einhver grýla, eða óþörf hræðsla. Háttv. þm. sagði og, að langur tími og miklir vafningar mundu fara í það að fá dómi gerðardóms fullnægt í öðrum löndum. Það held eg nú ekki. Þrætan er einu sinni fyrir alt útkljáð með úrskurði gerðardóms og ekki þarf annars með en að fá »executions« dóm fyrir þeim úrskurði í því landi, sem félagið er í. Hið sama verðum við líka að gera, þótt við fáum hæstaréttardóm í brunabótamálum, ef félagið er í öðru landi, t. d. í Havre á Frakklandi, þá verður alveg eins að fá »executions« dóm þar.

Þá sagði háttv. þm., að erfitt væri að fá endurvátryggingu, þegar um íslenzka ríkisábyrgð væri að ræða, hann kvað það vera af hræðslu við Íslendinga. Það held eg nú ekki, heldur hygg eg, að þessir erfiðleikar stafi af því, að félög þau, sem talað hefir verið um að fá endurvátryggingu í, voru hin sömu og vátryggingafélögin hér hafa endurvátrygt hjá. Þau félög hafa hótað því, að endurvátryggja ekki í sama stað aftur, ef íslenzkt ríkisvátryggingarfélag fengi endurvátrygt þar. Svona þykir þeim mikils um vert, að geta rekið störf sín hér, og kemur það ekki vel heim við þau orð háttv. þm., að þau muni fælast okkur.

Þá sagði háttv. þm. að úr göllunum mætti bæta með því, að heimta af félögunum, að þau legðu fram tryggingarfé hér í landi. En það er ekki þar sem skórinn kreppir, að félögin borgi ekki, þegar dómur einu sinni er fallinn, heldur hvað málareksturinn kostar mikið fé og fælir menn frá því, að sækja félögin að lögum, en knýr menn til að þola heldur rangláta féfletting. Það getur staðið yfir 4—5 ár. Og á því yrði engin bót ráðin, þótt tryggingarfé væri sett hér á landi.

Eg vona nú, að háttv. deild fallist á þetta frumv.

Eg skal geta þess, að við nefndarmenn gerðum alt, sem í okkar valdi stóð, til þess að vanda sem mest til frumv. og reyndum að kynna okkur það hjá útlendum félögum, hvort þau mundu fælast landið, þótt lög þessi yrðu samþykt. Félögin voru nokkuð þögul, en eg hefi ástæðu til þess að halda, að beztu félögin fari ekki. Frumvarp þetta er samið af lagamanni, sem hefir mikla þekkingu í þessum málum og manna mesta reynslu hér fyrir því, hve mikinn hnekki margir hafa beðið af hrekkjum hinna lakari félaga, sem fólkið hefir oft vátrygt hjá, eins og verða vill um almenning, að hann fer til hins fyrsta hins bezta.

Eg er sannfærður um það, að í frv. felst mikil réttarbót og hræðslan við, að það muni fæla góð félög úr landinu, hygg eg að sé ástæðulaus. Þótt það fæli hin lakari burt gerir ekkert til. Þau ættu að fara sem fyrst.