20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Framsögum. (Stefán Stefánsson):

Eg tók fram við 1. umr. þessa máls aðaldrætti frv., og mælti þá enginn á móti. Eg vona því að háttv. deild verði í aðalatriðunum samþykk þessu frumv. Skal eg þá leyfa mér að fara út í einstaka greinar frv., og skýra fyrir háttv. þm. ákvæði þeirra.

1. gr. frv er um jarðabætur þær, er ábúandi gerir og ekki eru áskildar í byggingarbréfi. Ber ábúanda fyrst að bera sig saman við jarðeiganda um hvernig kostnað við verkið skuli greiða. Vilji eigandi ekkert kosta til jarðabótarinnar, er ábúanda heimilt að gera hana á eigin kostnað. Hafi ábúandi notið ávaxta jarðabótarinnar í 10 ár, fær hann ekkert endurgjald fyrir hana, en ef svo er ekki, þá á ? kostnaðarins að dragast frá fyrir hvert ár, sem hann hefir notið jarðabótarinnar. Það er sjáanlegt, að ef ábúandi hefir notað ávaxta jarðabótarinnar í 10 ár og eigi fengið upp í kostnaðinn, þá er hún í sjálfu sér ekki mikilsverð jarðabót. Það er úttektarmannanna að segja um það, hvers virði jarðabótin er; mætti máske segja, að það væri ef til vill réttara, að láta dómkvadda menn meta þennan kostnað, því að hér getur verið um ekki svo litla fjárupphæð að ræða, en hvað sem því viðvíkur, þótti nefndinni nauðsynlegt, að skorður væru reistar við því, að jarðeigandi gæti neitað að borga, að vissum hluta tiltölulega nýunnin frambúðarverk. En nú er því svo varið, að jarðeigandi er ekki skyldur að borga neitt fyrir unnar jarðabætur, þó að verðgildi jarðarinnar hækki að miklum mun. Þetta ákvæði um borgunarskyldur jarðeiganda getur líka orðið til þess, að leiguliði, sem mikið vinnur til bóta ábýli sínu, geti trygt sér lengur ábúð á jörðinni, því að þurfi jarðeigandi að borga mjög háa upphæð, við fráför leiguliða, mun hann kynoka sér við að svifta hann ábúðinni, einkum þar sem hann þá jafnframt missir góðan ábúanda. Eg álít því þetta atriði mjög þýðingarmikið og um leið sjálfsagður hlutur, að leiguliðar, sem bæta og prýða annara eignir, eigi heimting á rétti sínum óskertum.

2. og 3. gr. eru um húsabætur á leigujörðum, sem nauðsynlegar eru fyrir ábúð á jörðum, og er eiganda gert að skyldu að leggja fram ¾ kostnaðar af aðkeyptu efni. En leiguliðar verða án endurgjalds að annast um alt það byggingarefni, sem jörðin sjálf leggur til, og ennfremur að kosta allan aðflutning. Ef til vill þykir mönnum það koma of hart niður á eiganda, að borga ¾ kostnaðarins, en eg hygg, að það geti ekki talist ranglátt, þegar þess er gætt, að eigandi hefir rétt til að hækka eftirgjald af jörðinni um 4% af kostnaðarupphæðinni og sömuleiðis rétt til að ráða allri húsagerðinni, og láta vinna að húsabótunum að tiltölu við framlagið. Það sýnist líka séð um, að leiguliði fari ekki að óþörfu að fást við húsabyggingar, þar sem svo mikið af kostnaðinum kemur niður á honum sjálfum. Hér sýnist því beggja hag gætt og eðlileg þátttaka frá hálfu hvors þeirra. En það er að eins þetta, sem verður að leggja áherzlu á, að eftir þessum lögum getur ábúandi krafist nauðsynlegra húsabóta, og það er ekki nema sanngjarnt, að eigandi leggi fram nokkuð af kostnaðinum við þær. Nú er því svo varið, að við ábúendaskifti gengur nær helmingur húsa kaupum og sölum, og það jafnvel nauðsynlegustu hús. Þetta fyrirkomulag kemur oft og einatt fyrir mjög hart niður sérstaklega á fráfarendum, og það því tilfinnanlegar, sem þeir hafa meiru til kostað.

Ákvæðin i 4. og 5. gr. heimila leiguliðum, er hafa innstæðukúgildi á jörðum sínum, að leysa þau til sín gegn því, að leggja jörðinni aðra eign jafngóða, annaðhvort í jarðabótum, sem auka verð og framleiðslu á jörðinni, eða óhjákvæmilegum húsabótum, samt svo að leiguliði leggi jafnframt frá sér ¼ húsaverðsins eða jarðabótanna. Kúgildin og þessar endurbætur meta dómkvaddir menn, og telst leigan síðan með landsskuldinni. Einnig getur landsdrottinn tekið kúgildi af jörð og hækkað landsskuldina um mismuninn á kúgildaleigunni og almennri peningarentu af verði kúgildanna.

Með þessu ætti það að vera fyrirbygt, að leiguliða sé íþyngt tilfinnanlega með kúgildunum, en þess þó jafnframt gætt, að jörðin falli ekki að veðgildi eða verði, sökum breytingarinnar.

6. gr. frv. er um skifti á engjum, beitilöndum eða hlunnindum jarða og jarðaparta. Það er nauðsynlegt ákvæði, því ábúandi á heimtingu á að fá að vita, hve mikið land hann hefir til umráða, en einkum er þetta nauðsynlegt, gangi jörðin kaupum og sölum. Skiftin gera tveir óvilhallir, dómkvaddir menn.

Eg hefi þá tekið fram helztu ákvæði frumv., og vona að það fái að ganga til 3. umr.