20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (2379)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Eg skal svara athugasemdum hins háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) nokkrum orðum. Eg skil þó ekki fyllilega meiningu hans. Hann áleit, að nefndin hefði ekki tekið nægilegt tillit til húsabygginga. Nefndin hefir athugað mál þetta rækilega og eg hygg það sé alveg rétt stefna, sem hún hefir tekið. Eg hefi talsvert hugsað þetta mál, og er sannfærður um, að þetta hefir margt gott í för með sér.

Lítum á ástandið, eins og það er nú. Ef leiguliði á hús á jörð, þá á sá, sem tekur jörðina næst, að kaupa húsin, ef hann vill. Neiti hann því, getur fráfarandi neyðst til að rífa húsin sér til stórskaða og jörðinni til niðurníðslu.

Ef jörðin er illa hirt, þá er hætt við, að lítil eftirsókn verði eftir henni. Hinn háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) hélt að ákvæðið um prósentgjaldið mundi fæla menn frá að taka jörðina. En á því held eg sé engin hætta. Hinn sami hv. þm. talaði sömuleiðis um, að óákveðið væri, hve mikið verðgildi húsanna yrði. En hér er vel og tryggilega um búið. Ef leiguliða og landsdrottni kemur ekki saman um verðið, þá geta þeir kvatt til úttektarmenn að meta húsin og skera úr ágreiningnum. Hér er einmitt vel um hnútana búið, eftir því sem eg hefi bezt vit á.

Ef jörðin er byggileg, mun leiguliði ekki horfa í þetta. Það er rangt að þetta lækki verð jarðarinnar, heldur mun hún þvert á móti hækka í verði. Mér blandast ekki hugur um, að þegar farið er að beita þessu, þá muni verða alment betur hýst, en nú á sér stað. Höfuðatriðið er, að jörðin sé vel hýst, því eftir því sem húsakynni eru betri á jörðinni, því meiri rækt leggja menn við landið. Það er líka landinu til sóma að húsakynni séu góð, og það gerir líka það að verkum, að menn eru spakari á jörðunum. En þegar mönnum líka ekki húsin á jörðunum, eru menn að flækjast frá einni jörðinni til annarar.

Það er aðgætandi, að það er ekki útlit fyrir stóra hækkun á landskuld, þó þetta komist á. Eg lít svo á, að bezta trygging fyrir því, að hús séu vel bygð og varanleg, sé sú, að landsdrottinn leggi þau til. Þau mundu ekki verða svo dýr, að hann munaði tilfinnanlega um það, og það mundi fljótt borga sig.