17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Flutningsmaður (Björn Kristjánsson):

Eg leyfi mér að koma fram með þetta litla frv.. samkvæmt áskorunum frá þingmálafundum í Keflavík og Garði.

Það hafa komið fram sterkar kvartanir um, að íslenzkir botnvörpungar hafi misbrúkað það leyfi, sem þeim var veitt með lögum frá síðasta alþingi, til að hafa hlera útbyrðis. Þetta hefir valdið mikilli óánægju, en ekki veit eg, hvort kært hefir verið yfir því til stjórnarráðsins. Það er þó talið áreiðanlegt, að botnvörpungarnir hafi notað sér þetta leyfi til þess að brjóta botnvörpulögin en varðskipið hefir ekki getað haft hendur í hári þeirra, því að ekki hefir verið hægt að sanna upp á þá brotið, þar sem þeir hafa leyfi til þess að hafa hlerana útbyrðis.

Eg veit ekki, hvort háttv. deild telur þörf á að setja nefnd í mál þetta. Eg vil ekki sjálfur stinga upp nefnd, en er samt ekki mótfallinn því, að sett sé 3 manna nefnd í það.