17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Jón Magnússon:

Eg get skilið, að háttv. flutningsm. (B. Kr.) hafi komið fram með frumv þetta til þess að þóknast kjósendum sínum, en varla að hann hafi þrek til þess að halda því til streitu. Eg skil ekki, að háttv. deild geti fallist á frumvarpið. Undanþága sú, sem hér er farið fram á að nema úr lögum, nær að eins til fárra manna, sem telja má úrval íslenzku sjómannastéttarinnar. Er næsta ólíklegt, að þessir menn hafi misbrúkað leyfi þetta, enda munu slíkar ásakanir að eins bygðar á óljósum getgátum. Eg staðhæfi og er þess fullviss, að þetta er ósannur áburður á umrædda heiðursmenn. Eg hefi fullan rétt til þess að segja, að hér sé farið með ósatt mál, þangað til að færð verða rök fyrir að öðru vísi sé háttað. Eg veit að vísu, að kærur hafa komið yfir þessum mönnum, en við rannsókn hefir það komið í ljós, að þær hafa ekki verið á neinum rökum bygðar. Það er ekki nóg að slá slíku fram, eins og háttv. flutningsmaður (B. Kr.) gerði, rakalaust.