17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Jón Þorkelsson:

Eg skal geta þess að eg var við mál þetta riðinn á síðasta þingi, bæði flutti eg það og var í nefnd þeirri, er hafði það til meðferðar. Skal eg játa, að eg var því þá hlyntur. En, eins og háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) tók fram, hafa nú komið fram ýmsar kærur yfir því, að lögin hafi verið misbrúkuð.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) og annar háttv. þm., sem eg ekki vil nefna, hafa haldið því fram, að þessar kærur og kvartanir séu ekki á rökum bygðar. En það getur þó enginn um dæmt til hlítar, nema því að eins, að kærur þessar séu rannsakaðar.

Virðist mér því bezt, að nefnd sé skipuð í málið til þess að rannsaka það. Komist nefndin að þeirri niðurstöðu, að kærur þær og kvartanir, er fram hafa komið, séu á rökum bygðar, finst mér geta komið til athugunar, að nema þessi lög frá síðasta þingi úr gildi, en annars ekki. Það væri ósómi, ef þingið, þvert ofan í kærur og kvartanir, kastaði þessu máli frá sér og liti ekki við því. Málið á að rannsakast og þingið á að gera það, sem það veit að er rétt, en ekki það, sem það heldur að sé rétt. Hér má til hvorugrar hliðar halla réttu máli.