17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Benedikt Sveinsson:

Mál þetta var til umræðu á þingmálafundum hér í vetur og var eg þar staddur. Var þar borin fram tillaga um að fella úr gildi undanþágu þá, er síðasta alþingi veitti íslenzkum botnvörpungum. Málið var ítarlega rætt á 1. þingmálafundinum og var tillagan feld með 90 atkv. gegn 10 —20. Menn álitu, að ekki væri ástæða til að fella undanþáguna úr gildi, þótt einhverjar kvartanir hefðu komið fram yfir því, að hún hefði verið misbrúkuð, þar sem ósannað er, að þær séu á rökum bygðar.

Íslenzkir botnvörpungar verða auðvitað að hlýða landhelgislögunum og eru sektarákvæðin fyrir brot á þeim nægileg. Þeir geta eins brotið lögin, þótt þeim væri ekki leyft að hafa hlerana útbyrðis, þegar þeir fara í gegnum landhelgina. Lögin frá síðasta þingi voru sett samkvæmt ósk útgerðarmanna hér. Íslenzkir botnvörpungar eru vanir að fara út á kvöldin og koma inn aftur á morgnana um sumartímann. Það væri því erfitt og óþægilegt fyrir þá, ef þeir þyrftu að taka hlerana, sem eru þung bákn, inn í hvert skifti. Það var til þess, að hlynna að atvinnuveginum, að síðasta þing veitti þessa undanþágu. Þetta er ekki misrétti gagnvart útlendum botnvörpungum, því að þeir eiga oftast nær ekkert erindi inn í landhelgina, en íslenzkir botnvörpungar eiga oft erindi þangað tvisvar á sólarhring.

Íslenzkir botnvörpungar eru einnig skyldir til að hafa sérstakt merki, þá er þeir sigla í gegnum landhelgina, en slíkt gæti ekki komið til greina með útlenda botnvörpunga. Kærur þær, er fram hafa komið yfir því, að forréttindi þessi hafi verið misbrúkuð, eru ekki á svo miklum rökum bygðar, að unt sé að taka þær til greina. Það er einnig aðgætandi, að hér er um uppvaxandi atvinnuveg að ræða, sem vert er að hlynna að. Þá er botnvörpuveiðar hófust fyrst hér við land var hér talsverður kali til þeirra, vegna þess að útlendingar áttu í hlut, sem lítt fóru að lögum. En nú þegar Íslendingar sjálfir eru teknir að stunda þessa atvinnugrein virðist rétt að hlynna að henni af fremsta megni. Eg vil því ráða háttv. deild til að fella frv. nú þegar.