17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Flutningsm. (Björn Kristjánsson):

Frumv. þessu er misjafnlega tekið. Háttv. þm. Vestm. (J. M.) og fleiri háttv. þm. hafa látið í ljósi, að eg hafi komið fram með frv. að eins til þess að þóknast kjósendum mínum, en þetta er tilhæfulaust. Það er auðvitað skylda hvers þingmanns að flytja erindi kjósenda sinna. En eg mundi ekki mæla með frv., ef mér væri það ekki alvörumál og eg teldi það ekki mjög nauðsynlegt. Þessi svæði suður með sjó eru þau einu, sem nota þorskanet. Þeim er því sérstök hætta búin af botnvörpungunum og þess vegna þarf að gæta þeirra vel. Það hefir nokkrum sinnum borið við, að varðskipið hefir séð þarna botnvörpunga í landhelgi, en hefir ekki getað fest hendur í hári þeirra vegna þess, að þeim er leyfilegt að hafa hlerana útbyrðis.

Háttv. þm. Mýr. (J. S.) talaði um, að það væri erfitt verk að losa hlerana og að það tæki langan tíma. En þetta er ekki rétt. Kunnugir segja, að það sé hvorki langrar stundar verk né erfitt. Háttv. þm. talaði einnig um, að frumv. mundi vera sprottið af því, að menn sjái ofsjónum yfir botnvörpuveiðunum. Þetta er heldur ekki rétt. Frv. er að eins komið fram til þess að vernda þorskanetin, sem er mikil hætta búin, ef landhelgisbrot á sér stað. En slíkt er botnvörpungunum miklu hægara að fremja, ef þeim er leyft að hafa hlerana útbyrðis.

Ef málið yrði sett í nefnd, gæti ef til vill orðið samkomulag um að leyfa botnvörpungunum að hafa hlerana útbyrðis í björtustu mánuðunum, en ekki í hinum. Mundi þá með slíku samkomulagi takmarki frumv. að mestu leyti náð. Þess vegna mæli eg með nefnd.