17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Bjarni Jónsson:

Eg gæti reyndar sparað mér ómakið að taka til máls, því háttv. þm. Vestm. (J. M.) hefir tekið fram flest það, sem eg vildi hafa sagt.

Eg er hinum háttv. þm. Vestm. (J. M.) sammála um, að þingið geti ekki, að óskertum sóma sínum farið að breyta þessu ákvæði og nema undanþáguna úr gildi, meðan menn hafa ekki öðru eftir að fara um landhelgisbrotin, en einhverjum lauslegum skilaboðum frá piltunum á þessu danska varðskipi. Og eg mun aldrei ljá mitt atkvæði til þess, hvort sem eg verð lengur eða skemur á þingi. Eg fæ ekki skilið, að neta- eða lóðafiskiveiðum geti verið hætta búin, þótt botnvörpungarnir hafi leyfi til þess að hafa hlerana utanborðs. Þeir eru ekki svo síðir, að þeir flækist í netunum eða duflunum. Það er undarlegt, að menn skuli telja það víst, að botnvörpungarnir brjóti lögin, af því að þeir hafa þessa undanþágu og þó hafa þeir enga ástæðu til þess að ætla, að þeir hafi brotið lögin, nema þessi skilaboð frá varðskipinu. Það er næsta hlægilegt.