17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Benedikt Sveinsson:

Háttv. flutnm. (B. Kr.) hélt því fram, að það væri ekki svo mikið í húfi, þótt umrædd lög frá síðasta þingi væri afnumin, því að það væri svo auðvelt og fljótlegt að losa hlerana. Þeir, sem á botnvörpungunum eru og hafa bezt vit á þessu, segja nokkuð annað. Þeir segja, að það sé að minsta kosti hálftíma vinna í hvert skifti og hún erfið og hættuleg, því að hlerarnir eru mjög þungir og í miklum og slæmum sjó getur það valdið slysum að fást við þá.

Eg hefi heyrt skipstjórana á íslenzku botnvörpuskipunum segja, að ef þessi undanþága væri tekin af þeim, þá mundu þeir spara sér það ómak að koma inn hingað, nema sem sjaldnast. Og eg verð að segja, að það væri skaði fyrir Reykjavikurbæ, því að þá mundi verða þurð hér á fiski, ef botnvörpungarnir hættu að koma hér inn daglega, eins og þeir gera á vorin og fyrri part sumars. Eg hygg að mótspyrnan gegn undanþágunni sé mest frá þeim runnin, sem selja fisk hér frá róðrarbátum, þeir vilja útiloka þennan ódýra markað, sem hér er nú á fiski, því að nú kostar fiskpundið oft ekki nema 3 aura, en kostaði áður 6 og 7 aura.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ) bar mér það á brýn, að eg hefði ekki hermt rétt frá því, sem gerðist á þingmálafundi Reykvíkinga. Eg var á fyrsta fundinum og þar var þetta mál borið upp og rætt og þar var það felt að taka þetta leyfi af botnvörpungunum. Eg var ekki á hinum fundunum og sagði heldur ekkert um það, hversu málinu hefði reitt af á þeim, en eg hygg, að þar hafi það verið lítið eða ekki rætt, heldur hafi menn farið eftir hleypidómum einstakra manna, en ekki eftir viti eða skynsemi. Skýrsla mín af þingmálafundi Reykvíkinga var alveg rétt. Eg vitnaði að eins í fyrsta fundinn, en ekki hina síðari.

Þessa málaleitun, sem hér er farið fram á, á alls ekki að taka til greina. Því hefir verið haldið fram, að botnvörpungarnir eigi hægra með að brjóta lögin, þegar þeir hafi þessa undanþágu. En úr því er lítið gerandi. Það er alt af mikil áhætta fyrir þá að brjóta lögin, því að þá eiga þeir á hættu, að afli og veiðarfæri verði gerð upptæk og auk þess eru þeir sektaðir um stórfé. Engar rökstuddar kvartanir hafa heldur komið yfir því, að lögin hafi verið brotin og er þetta mál því borið hér fram alveg að ástæðulausu. Þingið hefir nú með vitagjaldinu lagt þung gjöld á þessi skip og það ætti ekki að gera þeim enn óhægra fyrir með því að taka af þeim þessa lítilfjörlegu og sjálfsögðu ívilnun, sem þeim var veitt á seinasta þingi.