17.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

96. mál, botnvörpulagaundanþága

Ráðherrann (Kr. J.):

Það var réttilega tekið fram af háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) að það eru meir en lausleg skilaboð, sem liggja hér fyrir því til sönnunar, að lögin hafi verið brotin. Frammi á lestrarsalnum liggja skilríki fyrir því, að það er áhugamál Akurnesinga, að þessi undanþága verði tekin af íslenzku botnvörpungunum, og eins og flestum mun kunnugt er Akranes eitt af stærstu fiskiplássum landsins. Eg vil biðja menn að athuga nákvæmlega það sem fram hefir komið í málinu og kynna sér það.

Á Akranesi eru menn ekki svo mjög hræddir um, að innlendu botnvörpungarnir muni fremur en ella fiska í landhelgi, þótt þeim sé leyft að hafa hlerana úti, en hitt eru menn hræddir um, að útlendir botnvörpungar muni nota sér það, þegar hinir innlendu hafa þessi hlunnindi, þannig að þeir í þessu efni fari að eins og þeir væru innlendir botnvörpungar, en oft er erfitt að þekkja útlenda botnvörpunga frá innlendum. En þá eiga botnvörpungarnir hægra með að hleypa niður dragneti og fiski, þó í landhelgi sé. Því þótt þeim sé gert að skyldu að sýna glögg merki, þá vita menn að þesskonar fyrirmæli eru oft ekki annað en dauður bókstafur; afarerfitt að sjá um, að þeim sé hlýtt.

Eg óska helzt, að málið sé sett í nefnd. Það er þess vert vegna þess mikla áhuga, sem menn hafa á því í einu stærsta fiskiplássi landsins. Eins og kunnugt er, styðst Akranes nær eingöngu við fiskiveiðar og lifir af þeim, og þar á fiskimiðum þeirra er yfirgangur botnvörpunga einna mestur. Þess vegna er sanngjarnt, að tekið sé fult tillit til málaleitana þeirra í þessu efni, og bæta má því við, að það er ekki mætara að liggja undir yfirgangi innlendra botnvörpunga en útlendra.

Eg álít rétt að setja nefnd í málið, sem athugi það, sem fram hefir komið í því, og hvað mæli með málaleitunum þeim, sem frumv. styðst við.