06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Framsögumaður (Steingrímur Jónsson):

Fjárlaganefnd þessarar deildar hefir nú haft frumvarpið til meðferðar. Hún hefir lagt til að á því verði gerðar nokkrar breytingar, eins og sjá má á áliti hennar á þingskjali 465. Aðalefni þessara breytinga er niðurfærsla. Nefndin fer fram á, að útgjöld þau, sem ákveðin eru í frumvarpinu, lækki úr kr. 142,621,25 ofan í kr. 99,121,25. Alls nemur niðurfærslan þannig 43 þúsund og 500 kr. Nefndin leggur til, að margir útgjaldaliðir séu lækkaðir, en að eins fáir hækkaðir. Í fjáraukalögunum 5. gr. B I—III er klausa um að háskóli Íslands skuli settur 17. Júní, en laun háskólakennaranna séu talin frá 1. okt. þetta ár. Nefndin leggur til, að þau útgjöld, sem af þessu leiða. séu tilfærð í frumvarpinu. Þau eru hvort sem er óhjákvæmileg. Þessi útgjöld nema 3450 kr. Í raun réttri eru útgjöldin eftir frumv. neðri deildar kr. 146,071,25. Lækkunin er þá kr. 46,950. Eg sný mér þá að einstökum breytingartillögum, er komið hafa frá nefndinni.

Fyrsta brtill. er við 4. gr. B XIII, að fjárveitingin til brúar yfir Hölkná verði færð niður, úr 4500 kr. í 3500 kr. og greiði héraðið það sem á vantar byggingarkostnaðinn. Nefndin lítur svo á, að ekki sé rétt, að landssjóður leggi fram allan byggingarkostnaðinn, heldur, að héruðin leggi nokkuð af mörkum, er um slík fyrirtæki er að ræða, og að þau sýni með því, að þeim þyki eitthvað varið í, að þau komist á. Auk þess telur nefndin réttast, að brúin sé úr járni, en ekki úr tré. Nefndin álítur, að það ætti að vera regla um brýr, sem ekki liggja á þjóðvegum, að héruðin kostuðu þær að nokkru leyti. Eg vil þó benda á, að hér stendur nokkuð sérstaklega á. Vegurinn, sem brúin liggur á, er að vísu sýsluvegur en um hann er mikil umferð og hann er aðalvegur um mikinn part Þingeyjarsýslu og Norður- Múlasýslu. Þessar 1000 kr., sem sparaðar eru við Hölknárbrúna, leggur nefndin til, að veittar verði til brúar yfir Víðidalsá í Steingrímsfirði, sem eins er ill yfirferðar og nauðsyn á brú. Telur nefndin styrk þeim, sem veittur er til þessa fyrirtækis, vel varið. Skilyrði fyrir að hann sé veittur er það, að brúin sé úr járni. Brúin verður að vísu dýrari en 1000 kr. (um 2000 kr.), en það er ætlast til, að héraðið leggi hitt fram.

Þá leggur nefndin til, að feld sé burt fjárveitingin til loftskeyta milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Hæstv. forseti hefir bent mér á, að nokkur ónákvæmni væri í, hvernig breytitill. nefndarinnar er orðuð. Þar stendur nefnil. að liðurinn D II falli burt, svo að það mætti ef til vill skilja þetta þannig, að átt væri við alt, sem talið er í liðnum. En af því að „D. II“ stóð beint fram undan línunni, álitum við þetta nægja, en til vonar og vara hefi ég lagt svo fyrir við skrifstofu þingsins, að það komi breytingartillaga um þetta nú, meðan á umræðum stendur, þar sem þetta sé nákvæmara orðað. Aðal ástæða nefndarinnar til að fella fjárveiting þessa burt er sú, að meiri hluti hennar lítur svo á, sem loftskeytasamband verði að minna gagni en símasamband. Loftskeytasamband er að eins samband við Reykjavík, en símasamband er samband við allar símastöðvar á landinu, eitthvað um 60 — og þar að auki er það talsamband. Þótt Vestmannaeyingar gætu ef til vill ekki átt tal við allra fjarlægustu stöðvarnar, þá gætu þeir að minsta kosti átt tal við mjög margar þeirra. En fyrsta og veigamesta ástæðan gegn loftskeytum er samt sú, að með þannig löguðu sambandi væri brotið það kerfi, sem nú er komið á hér á landi í þessu efni, nefnilega símasambandið - slíkt er í ósamræmi við það. En auk þess verða loftskeytin landssjóði miklu dýrari. Eftir áætlun landssímastjórans verður reksturskostnaður við símalínu ekki nema 500 kr. Eftir það að hann hefir gert nákvæmar áætlanir um þetta efni, hefir hann komist að þeirri niðurstöðu, að nettótekjur af honum mundu verða yfir 3000 kr. Stofnkostnaður verður eftir áætlun hans ekki meiri en um 30 þús. kr., svo að það verða yfir 10% vextir af þessari upphæð. En eftir áætlun stjórnarinnar nemur reksturskostnaður við loftskeyti um 6000 kr. Landssímastjórinn álítur, að hann mundi verða 5500 kr. Hvað viðhald loftskeytastöðva kostar, skal ég ekki segja neitt um, en agent Marconifélagsins hér, sem nefndin hefir átt tal við, heldur því fram, að hann sé mjög lítill. Þó að tekjur af loftskeytum yrðu nokkru meiri en af símaskeytum, yrði samt „undirballance“. Þær áætlanir, sem nefndin hefir fengið um þetta efni, eru ekki nákvæmar. En það er víst, að munurinn á dýrleika er geysimikill. Í öðru tilfellinu fáum vér háa vexti, í hinu fer því svo fjarri, að vér fáum nokkra vexti greidda af því fé, er vér leggjum fram, að það vantar mikið á, að inn komi svo mikið fé, að það samsvari reksturskostnaði. Stofnkostnaður við loftskeytasamband er ca. 40 þús. kr. Stofnkostnaður við símasamband er ekki nema 30 þús. kr., því það er ætlast til, að Vestmannaeyjar leggi til 4. þús. kr. Eftir því sem nefndinni hefir verið skýrt frá, þá hafa Vestmannaeyingar látið í ljós, að þeir vildu ekki loftskeytasamband, og er það ein af ástæðunum til þess, að nefndin leggur til, að þessar 40 þús. krónur verði feldar burt.

Eg skal geta þess, að nefndin hefir hinsvegar ekki komið fram með breytingartillögu um, að veitt skyldi fé til símasambands. En ef slík tillaga kemur fram og ef sæmilega rætist fram úr fjárhagnum, þá mundi eg telja mig skuldbundinn til að greiða henni atkvæði mitt. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að það að vera mótfallinn loftskeytasambandi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, er ekki sama sem að vera móti því, að loftskeytastöð sé sett á stofn hér á landi. Eg segi það fyrir mína hönd og sama hygst ég geta sagt fyrir meðnefndarmenn mína. Það er sitthvað að hafa loftskeytasamband milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja — og að hafa eina loftskeytastöð hér í Reykjavík, sem hafi samband við skip úti í hafi.

(Gunnar Ólafsson: Yrði það ódýrara?)

Eg er ekki viðbúinn að svara því. En ef loftskeytastöð yrði reist hér í Reykjavík, þá yrði hún rekin í sambandi við símann, svo að reksturskostnaður yrði ekki mjög mikill. Ef loftskeytastöð yrði sett hér á stofn, þá ætti hún að vera svo sterk, að skeyti frá henni næðu yfir hafið, og senda mætti þau til Noregs, Írlands og Grænlands. Slíkar stöðvar eru ekki svo dýrar, að það væri óvit í því fyrir oss að koma þeim á stofn, og slík stöð gæti ef til vill gefið af sér miklar tekjur. Mér eða nefndinni dettur samt ekki í hug að fara fram á breytingar í þá átt.

4. breytingartill. nefndarinnar er við vitann á Siglunesi. Nefndin lítur svo á, að nauðsynlegt sé að byggja hús handa vitaverðinum á Siglunesi. Í frumvarpinu eru veittar til húsbyggingarinnar 3 þúsund kr. En nefndin álítur, að 2 þúsund kr. séu nægilegar til þess. Þá er líka br.till. frá nefndinni um laun vitavarðarins sama staðar. Neðri deild og stjórnin hefir sett þau 12 hundruð kr. Þetta þykir nefndinni óþarflega mikið. Hann hefir nú 600 kr. laun. Hún telur 300 kr. nægilega launahækkun þannig, að hann hafi 900 í laun. Hann hefir eftir því 100 kr. um mánuðinn, þar sem hann vinnur ekki við vitann lengur en þá 9 mánuði, sem kveikt er á vitanum. 3 mánuði ársins, einmitt þegar einna bezt er atvinna á Siglufirði, getur hann leitað sér annarar atvinnu. Auk þess verður að gæta þess, að hann hefir leigulausan bústað.

Næsta breytingartillagan er við 5. gr. B. I—III. Hún er um háskólann. Það er svo gert ráð fyrir, að hann skuli settur 17. júní og að hann taki til starfa 1. okt. og að laun kennaranna séu reiknuð frá þeim tíma. En af þessu leiðir að færa verður í útgjaldadálkinn 3450 kr. sem eru laun til kennara háskólans fyrir síðasta fjórðung þ. á., annaðhvort hækkun á launum þeirra kennara, sem nú eru við æðri skólana hér, eða laun til þeirra kennara, sem við verður bætt. Þetta er í raun og veru engin breyting, að eins formbreyting.

Þá er næsta brtill. nefndarinnar við 5. gr. B VII, að byggingarstyrkur til kvennaskólans á Blönduósi falli niður. Úr því að hús kvennaskólans er nú brunnið, lítur nefndin svo á, að rétt sé að rasa ekki fyrir ráð fram að því að reisa það aftur, fyrr en það sé rannsakað, hvort heppilegt sé að hafa skólann þar eða ekki. Það geta verið og eru skiftar skoðanir um kvennaskólamál landsins. Sumir álíta, að vér eigum að eins að hafa einn almennan skóla, en aðrir eru þeirrar skoðunar að þeir eigi að vera fleiri. Ef þeir eiga að vera fleiri en einn, heldur ágreiningur áfram og hann snýst þá um, hvar skólarnir eigi að vera. Eg hygg, að allur þorri Norðlinga sætti sig ekki við að hafa skólann á Blönduósi. Alt þetta þarf að athuga, áður en skólahúsið er reist af nýju. Þetta skólahús var bygt í trássi við stjórn og þing og án samkomulags eða málaumleitana við aðra Norðlendinga. En ég held, flestir Norðlendingar kysu að hafa kvennaskóla fyrir alt Norðurland á Akureyri. Og ég held líka að flestir séu á því, að rétt sé að hrapa ekki að endurbygging skólahússins fyrr en alt þetta er athugað og rannsakað, eins og ég sagði.

Þá leggur nefndin til, að ekkjufrú Björg Einarsdóttir fái 200 kr. í eftirlaun. Hún er ekkja eftir einn af merkustu prestum landsins, sem andaðist síðastliðið haust í hárri elli. Nefndinni þótti eðlilegt, að hún fengi þennan styrk, þar sem hún vitanlega er styrkþurfi.

Nefndin getur þess í áliti sínu, að hún telji meðferð fyrverandi stjórnar á fé því, er veitt var síldarmatsmanninum á Akureyri til ferðakostnaðar, nokkuð athugaverða. Eg skal geta þess, að ummælum nefndarinnar er ekki beint á móti manninum, sem fékk þennan styrk, og í þeim felst heldur ekki aðdróttun til hans um, að hann hafi farið illa með styrkinn. Nefndinni þótti að eins gengið of langt í þessu efni fram yfir það, sem seinasta þing hafði ætlast til.

Þá eru komnar fram nokkrar breytingartillögur frá háttv. þingdeildarmönnum. Þar verður fyrst fyrir tillaga frá háttv. þm. V.Ísf. (Kr. D.) Þar er farið fram á, að veitt verði fé til að reisa Jóni Sigurðssyni minnisvarða á fæðingarstað hans, Rafnseyri, 1500 kr., gegn jafnmiklu framlagi frá héraðsbúum. Af skjölum þeim, er fylgdu þessari málaleitun, sást, að það var í raun og veru ekki meiningin, að fé þessu væri varið til minnisvarða, heldur til hátíðahalds. Það er búist við, að minnisvarðinn sjálfur kosti ekki nema 800 kr. En til hans hefir nú safnast um 700 kr. En það er gizkað á, að hátíðarhald og reising minnisvarða í sameiningu kosti 3 þús. kr. Nefndin áleit rétt að veita fé til minnisvarðans, en aftur þótti henni varhugavert að veita fé til hátíðahalda. Hátíðahöld til minningar um aldarafmæli Jóns Sigurðssonar eiga héruðin að kosta sjálf.

Þá er hér önnur brtill. frá háttv. sama þingmanni, þm. V.-Ísafj., um að leggja talsíma frá Ísafirði til Suðureyrar í Súgandafirði fyrir alt að 6200 kr. Í skýrslum landsímastjórans er farið fram á að sími verði lagður þarna á næsta fjárhagstímabili. Nefndin sér ekki þörf á því að gera þetta í sumar, henni finst ekki rétt að breyta frá þeirri áætlun, nema brýn nauðsyn sé til, sérstaklega af því nú liggur fyrir háttv. neðri deild frumvarp um símalagningu. Nefndin vill því fresta þessari fjárveitingu til fjárlaganna.

Þá er hér önnur tillaga á þingskj. 489 frá hæstv. ráðherra, þar sem sótt er um viðbót við skrifstofukostnað landsverkfræðingsins. Það var farið fram á það á þinginu 1909 að honum yrði veittar 700 kr. í skrifstofufé. Þessi upphæð var þá færð niðnr í 500 kr. Landsverkfræðingurinn hefir nú sent reikning yfir skrifstofukostnað sinn, þar með talin ræsting, sími o. fl. o. fl. og hefir kostnaðurinn orðið kr. 629,98, eða kr, 129,98 meira en veitt var á fjárlögunum. Nefndin lítur svo á, að ekki beri að draga þessa upphæð frá launum landsverkfræðingsins, og leggur hún því til að hún sé veitt.

Þá er hér enn ein brtill. á þingskj. 490 frá háttv. 2. þm. Skagf. um að reisa leikfimishús á Hólum. Um þessa tillögu þarf eg ekki að fjölyrða. Hann mun ætla að taka hana aftur.

(J. B.: Með skilyrði).

Nefndin lítur svo á, að rétt sé að reisa leikfimishús á Hólum eins og á Hvanneyri, en hún sér ekki ástæðu til þess að gera það í sumar, hún óskar því að það sé dregið þangað til á fjárlögunum. Það mun vera nægilegt að veita fé til þess á fyrra ári fjárhagstímabilsins.

Fleira hefi eg ekki að segja að þessu sinni sem framsögumaður.