14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Lárus H. Bjarnason:

Eg má játa það að eg er fyrir viðburðanna rás ekki jafnvel undirbúinn að tala um þetta mál og skyldi. Sú greinin 5. gr., sem nefndin leggur til að standi, ætti helst allra greinanna að falla burtu. Hún tekur sem sé meira tillit til kirkjunnar en til safnaðarmanna, jafnvel meira tillit en góðu hófi gegnir, enda sátu 3 prestar í nefndinni.

Að nafninu til er trúarbragðafrelsi hér á landi. Ættu utanþjóðkirkjumenn því ekki að þurfa að gjalda til framandi prests eða kirkju. En svo er ekki að lögum vorum. Þeir losna því að eins við þjóðkirkjuna að þeir hafi myndað söfnuð og fengið löggiltan prest. Undan þessari gjaldskyldu utanþjóðkirkjumanna vill stjórnin leysa þá. Raunar ekki undan öllu gjaldi, eins og vera bæri, heldur ætlast hún til, að það gjald er prestlausir utanþjóðkirkjumenn nú svara þjóðkirkjunni og hennar prestum, gangi til kenslumála, og mundi það mælast betur fyrir en gildandi gjaldmáti. Þetta vill nefndin ekki aðhyllast, en ræður hins vegar til þess að versta ákvæðið standi, ákvæði 5. gr. um, að maður, er gangi úr þjóðkirkjunni, skuli eftir atvikum greiða tiltölulegan hluta af skuld kirkjunnar. En það ákvæði getur leitt til þess að sami maður þurfi að standa straum af tveimur kirkjum.

Setjum t. d. svo, að söfnuðurinn tæki að sér dómkirkjuna í Reykjavík, að kirkjan væri í stórri skuld og að nokkrir menn gengu síðan úr dómkirkjusöfnuðinum og í fríkirkjusöfnuðinn. Þeir hinir sömu menn yrðu þá fyrst og fremst að greiða skuldir sínar til dómkirkjunnar og taka svo á sig skuld fríkirkjusafnaðarins.

Hinsvegar fá þeir, er kynnu að ganga úr ríkum og skuldlausum þjóðkirkjusöfnuði ekki tiltölulegan hluta af nettó-eignum fyrverandi kirkju sinnar. Og það er ósanngjarnt, úr því að þeim er gert að skyldu að taka þátt í skuldunum.

Jafnframt leyfi eg mér að benda á það, að tiltekin sóknarkirkja er, það sem á lagamáli er kallað, „juridisk person“ og eg vil nefna lögpersónu. Hana eiga ekki tilteknir menn, heldur aðeins þeir, sem á hverjum tíma teljast til safnaðarins.

Því eiga skuldir hennar ekki að bitna á þeim sem úr ganga. En eigi að koma slíku til leiðar, þá verður samræmisins vegna líka að fá þeim mönnum tiltölulegan hluta af eignum hennar. Mál það, sem hér liggur fyrir er að vísu ekki stórt peningaspursmál eða mun sjaldan verða það. En hér er um „princip“-mál að ræða og í því hef eg ekki getað látið það afskiftalaust, enda mun það heldur hnekkja fríkirkjuhreyfingunni en hitt.

Eg mun við 3. umræðu þessa máls koma fram með viðaukatillögu þess efnis, að þeir, sem ganga úr þjóðkirkjunni, fái útborgaðan sinn hluta af netto-eign kirkjunnar, ef tillaga nefndarinnar stendur við þessa umræðu.