21.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

98. mál, kjördæmaskipun

Pétur Jónsson:

Mér finst það ekki eins ómerkilegt atriði í sjálfu sér, og háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) að leggja frv. fyrir þingið. Eg tel það að eyða tíma þingsins, að koma með eins mörg þarfleysufrumv., eins og þessi þm., hefir gert, bæði nú og á síðasta þingi. Það er ekki rétt að leika sér með tíma þingsins og gera þinginu trafala að þarflausu. Það hefir verið tekið fram, að þetta frv. kemur í bága við gildandi stjórnarskrá. Nú er á ferðinni frumv. um breytingar á stjórnarakránni. Fyr en það er samþ. af þinginu, getur enginn vitað, hvað ofan á verður um skipun þingsins og þingmanna tölu. En það er undirstaða kjördæmaskipunar. Hvað hefir þá þetta frumv., þetta »skrif«, að þýða fyrri? Ekki er langrar stundar verk að skrifa það upp, þegar á þarf að halda. Það er því allsendis óþarft að koma fram með þetta frumv. nú. Eg álít, að það eina rétta, sem gera beri, sé að fella frumv. undir eins, og þeir, sem greiða því atkvæði, séu samsekir í því að leika sér með tíma þingsins.