22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

112. mál, merking á kjöti

Framsögrumaður (Björn Sigfússon):

Landbúnaðarnefndin hefir leyft sér að koma fram með þetta stutta frumvarp.

Eins og kunnugt er, hefir nú fyrir skemstu verið tekið upp hér á landi að merkja kjöt til útflutnings. Dýralæknarnir hafa gert það aðallega, en þeir eru að eins tveir. Jafnframt hefir það komið fyrir, að aðrir menn hafa gert það og notað stimpla, sem eru líkir þeim, sem dýralæknarnir brúka. Þetta getur orðið þýðingarmikið. Ef útlendir kaupendur komast að því, að hér geti hver sem vill merkt og stimplað kjöt, án þess að hafa þá þekkingu, sem þarf til þess, þá má búast við, að slík merking verði þar álitin þýðingarlaus og veiti enga trygging fyrir gæðum vörunnar. Því er sjálfsagt að setja lög um merki dýralækna, og annara, sem það er leyft, svo að aðrir geti ekki falsað. Og þetta er aðaltilgangur frumv.

En með því nú, að dýralæknarnir eru að eins 2 á öllu landinu, þá er nauðsynlegt að hafa ákvæði um það, að fleiri menn gætu notað stimplana. Það yrðu að vera menn, sem næmu þessa grein af dýralæknunum og tækju próf í henni. Eg ímynda mér, að allir deildarmenn séu sammála um það, að hér sé um þýðingarmikið mál að ræða. Nú er það svo, og verður sjálfsagt framvegis, að kindakjöt verður ein af aðalútflutningsvörum landbænda. Það er því fljótséð, að það varðar landið svo hundruðum þúsunda króna skiftir, hvort kjötið selst meira eða minna. Það hefir sýnt sig, að kjöt, sem hefir verið stimplað af dýralæknunum, hefir komist í hærra verð erlendis en annað kjöt, og er það eðlilegt, því að merki þeirra er skoðað sem talsverð trygging fyrir því, að fæðan sé holl og að öllu leyti vel með farin.

Vel má vera, að það gæti komið til greina, meðan ekki eru nógu margir dýralæknar hér á landi, að fá dýralækna frá útlöndum til þess að leysa þetta af hendi, þó hætt sé við, að það yrði svo dýrt, að ekki svaraði kostnaði. Nefndin hefir þó ekki tekið það ákvæði upp í frumvarpið beinlínis.

Málið virðist einfalt og skal eg ekki fjölyrða um það að sinni, en vona að deildin sýni því velvilja og lofi því að ganga til 2. umr. En áður en eg sest niður, skal eg taka það fram, að í niðurlagi 3. gr. er prentvilla eða misritun. Þar stendur »innan í merkinu«, en á að vera: »innan í þríhyrningnum«.