22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

112. mál, merking á kjöti

Bjarni Jónsson:

Eg er á sama máli og háttv. framsögum. (B. S.), að merki á kjöti eigi að vera trygging fyrir þá, sem verzla við okkur, fyrir því, að þeir kaupi heilbrigt kjöt. Og þá er fyrst hægt að búast við, að verð á kjöti hækki erlendis. En til þess þetta geti orðið, þurfa ráðstafanir þær, sem gerðar eru, að vera svo tryggilegar, að kaupendur hafi ástæðu til þess að halda, að það kjöt, sem er sagt heilbrigt sé heilbrigt. Frumvarp þetta er að því leyti gott, sem það verndar stimpil dýralæknis. Eg hygg það sé ekki hægt að kenna kjötskoðun fljótlega, svo gagn sé að. Sá, sem skoðar kjötið verður að geta þekt bakteríurnar og það tekur all-langan tíma. Og þótt dýralæknir gæti kent þetta nokkurn veginn til hlítar, þá hefði það ekki þá tryggingu, sem það hefði, ef dýralæknir gerði það, og það mundi þessvegna ekki hafa áhrif á markaðinn erlendis.

Eg álít, að þessi viðbót við uppkast dýralæknis sé til skaða. Dýralæknir gerir ekki ráð fyrir í sinu uppkasti, að aðrir skoði kjötið en dýralæknar og eg álít það sé rétt. Reyndar mundi það verða til þess, að sumir landshlutar fengju ekki kjöt sitt skoðað og mundu því fá lægra verð fyrir það.

Eg skal að lokum geta þess, að við 2. umræðu þessa máls mun eg koma með breytingartillögu í þá átt að fella þessa viðbót burtu.