06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

112. mál, merking á kjöti

Framsögumaður (Björn Sigfússon):

Eg þarf að eins fáu að svara.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) áleit, að það væri til skemda, að ekki mætti taka hærra verð fyrir stimplunina en 5 aura af hverjum kropp, og sagði, að Húnvetningar ætluðu að fá sér dýralækni frá Noregi í haust, til þess að stimpla kjöt fyrir sig, en ef ekki mætti taka nema 5 aura fyrir hvern kropp, þá yrði þeim meinað það. Kynlegt þykir mér það, að hann sé fróðari um þá hluti en eg. Eg veit ekki til þess, að Húnvetningar ætli að fá dýralækni frá Noregi. En þó svo væri, að þeir eða aðrir gerðu þetta, þarf það ekki að standa í vegi, þó ekki mætti taka meira en 5 aura fyrir hvern kropp. Hvort sem væri sláturfélög eða kaupmenn, má vel borga ferðakostnað aukreitis, ef það þætti borga sig. Annars mun sú raun á verða, að sú leið reynist ófær vegna kostnaðar.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hélt því enn fram, að stimplun annara manna en dýralækna mundi ekki vinna tiltrú í útlöndum. En meðan engin reynsla er fengin fyrir þessu, fullyrði eg, að hann viti ekkert um það og mótmæli því. Eg legg engan trúnað á þetta, þó dýralæknirinn, sem eg sé, að nú stendur á bak við hann, kunni að hafa hvíslað því í eyra hans. Eins og dýralæknar hafa verið svo hugvitssamir að finna upp þessa stimplun til að auka atvinnu sína, eins má búast við, að þeir reyni að koma í veg fyrir kjötskoðun annara, svo að þeir taki ekki atvinnuna frá þeim. Ef ekkert gagn reynist að stimplun þessara manna, sem gert er ráð fyrir að læri þetta sérstaklega, þá mun verða hætt við það aftur og þar með er það mál úr sögunni.

Eg held, að hér liggi einhver fiskur undir steini. Það virðist vera svo mikið kappsmál, að koma í veg fyrir, að kaup dýralæknanna verði takmarkað. Mér virðist 5 aurar fyrir hvern kropp, vera sæmilega hátt, og ekki ástæða til að meira sé okrað á því. Mér er sagt, að dýralæknir geti skoðað 600 kroppa á dag. Það verða 30 kr. um daginn með 5 aura gjaldi, og mér finst það vera full boðleg daglaun, þó lærður dýralæknir eigi í hlut. Eg vona, að deildin samþykki frumvarpið, eins og það liggur fyrir, nema 1. breytingartillöguna má gjarnan samþykkja, eins og eg hefi áður sagt.