06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

112. mál, merking á kjöti

Bjarni Jónsson:

Eg skal segja það strax, að mér er þetta alveg kapplaust og það liggur hér enginn fiskur undir steini frá minni hálfu.

Eg skal svara háttv. þm. Snæf. (S. G.) því, að eg hefi ekki lögfullar sannarir fyrir því, sem eg hefi sagt. En eg »þekki á fólkið« og þær kröfur, sem það gerir í þessu efni. Það kaupir aldrei kjöt nema það hafi stimpilinn nr. 1, og það kaupir ekki heldur kjöt, sem er með stimpli, sem það ekki þekkir. Þegar þessir menn nú koma til kjötsalans og spyrja hann, hvernig standi á þessum stimpli, þá mun hann segja, að þetta kjöt sé stimplað af »autoriseruðum« stimplara á Blönduós. »Er það dýralæknir«?, segja þeir. »Nei«, segir kjötsalinn, »en það er maður, sem hefir leyfi til þess að stimpla kjötið«. Þegar kaupendurnir hafa heyrt þetta, mun enginn kaupa kjötið, þó það sé stimplað. Þeir, sem ná til dýralæknis, munu þá fara til hans og biðja hann að setja aukastimpil á kjötið, svo það sjáist, að það sé frá dýralækni. Og þeir, sem hafa þennan aukastimpil á kjötinu fá háa verðið og aðrir ekki. Þeir menn, sem aldrei hafa talað við þessa menn og aldrei skift við þá, geta talað, eins og hér hefir verið talað en aðrir ekki.