22.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Framsm. (Sigurður Sigurðsson); Eg skal reyna að vera eins stuttorður og mér er hægt.

Eins og kunnugt er, þá er alllangt síðan, að tillagan um breytingar á skilyrðum og reglum um styrkveitingu til búnaðarfélaga lá hér fyrir deildinni til 1. umr. Var þá þessu máli vísað til landbúnaðarnefndarinnar. Búnaðarþingið stóð yfir um þessar mundir og hafði það einnig málið til meðferðar og gerði ýmsar breytingar við tillöguna. Tók hv. þm. S.-Þing. (P. J.) að sér að flytja þessar breytingar inn á þingið, og hefir þeim verið útbýtt meðal deildarmanna. Nefndin hefir aðhylst þær flestar og tekið upp í sínar brtill. En brtill. nefndarinnar eru á þgskj. 126. Breytingar nefndarinnar eru nokkuð margar, en af því nokkuð er umliðið, síðan þeim var útbýtt, þá munu þingmenn hafa áttað sig á þeim, og mun þess vegna ekki þörf á að fara langt út í hin einstöku atriði í brtill. En þar sem um verulegar efnisbreytingar er að ræða, þá vil eg leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær.

Eg gat þess upphaflega, að tillaga mín á þgskj. 28 breytti öllu máli í búnaðarstyrksreglunum í metramál. Nefndin hefir nú við nánari athugun gert nokkrar breytingar við tillögu mína. Á þgskj. 28 er gert ráð fyrir, að 10 menn séu í félagi hverju að minsta kosti, og að hver þeirra hafi unnið minst 12 dagsverk. Nefndin hefir fært félagatöluna niður í 8, og að hver þeirra hafi unnið 10 dagsverk. Þetta eru efnisbreytingar og vona eg að hin háttv. deild fallist á þær. Breytingartillaga þm. Sfjk. (B. Þ.) á þgskj. 65 leggur til, að tala félagsmanna sé færð niður í 5. Nefndin leggur til, að sú tillaga sé feld. Það sem vakti fyrir nefndinni, er hún færði töluna úr 10 niður í 8, var, að hún vildi með því gera þeim hreppum, sem hafa færri en 10 búendur, mögulegt að vera í félagi fyrir sig.

Þá er 4. brtill. um útnefning skoðunarmanna. Nú eru þeir útnefndir af sýslunefnd, en hér er farið fram á, að þeir verði framvegis útnefndir af sýslunefnd (eða bæjarstjórn) eftir tillögum búnaðarsambandanna. Eg hefi lagt til, að þeir verði ekki fleiri en 2 í hverri sýslu, en háttv. meiri hl. nefndarinnar vill hafa þá fleiri. En eg verð að halda því fram, að það sé óheppilegra, því að hættara er þá við ósamræmi í skoðunargerðinni, ef þeir eru fleiri en 2.

Þá er brtill. frá hv. þm. S.-Þing. (P. J.), sem gengur í þá átt, að eftir árið 1915 megi skoðunarmaður eigi taka upp í skýrsluna túnasléttur, túnaútgræðslu né sáðreit á þeim sveitabæjum, þar sem ekki er til salerni og áburðarhús«. Nefndinni þótti hér helzt til langt gengið, og varð það ofan á, að hún vildi að eins láta skilyrðið ná til salerna, en ekki til áburðarhúsa.

Brtill. 6. og 7. gera ráð fyrir, að túnútgræðsla falli burt og verði gerð að sérstökum lið. Túnútgræðslu kallar maður það, þegar teknar eru sléttar grundir, sem lítið þarf að gera við, og þær gerðar að túni með áburði og friðun.

Flestar aðrar brtill. eru að eins orðabreytingar, eða þá að þær standa í sambandi við það, sem eg hefi þegar minst á.

Eg hefi lagt það til um túnasléttur, að 50 fermetrar (= 14 faðm.) séu lagðir í dagsverkið, í stað þess að nú eru lagðir 12 faðmar í það. Þetta hygg eg vera sanngjarnt, þegar tekið er tillit til aukinnar notkunar plógs og herfis. Aftur á móti legg eg til, að 75 fermetrar séu lagðir í dagsverkið í kálgörðum. Að öðru leyti er lagt svipað í dagsverkið og nú gerist, að því er girðingar snertir o. fl., ef til vill þó víðast dálítið lægra. Þegar núgildandi reglur og skilyrði voru samþykt 1901 var mjög lítið um áburðarhús, svo að alla reynslu vantaði, hvað þau snerti. Þar hefir verið ofhátt lagt í dagsverkið; eg hefi því lagt til, að það væri lækkað, en nefndin vill lækka það meir.

Loks vil eg minna á, að inn í þessar reglur hafa verið teknir tún- og engjavegir. Engjavegir eru mjög þýðingarmikil jarðabót og skilyrði fyrir því, að hægt sé að aka heim heyi; það veit eg nú vera gert að eins á tveim stöðum, Hvanneyri og Þorvaldseyri. En sjálfsagt mætti víðar koma þessu við, ef gerðir væru engjavegir, og þá er einnig rétt, að hvetja til þess, að þeim sé komið á, með því að taka þá upp í reglurnar, svo þeir verði aðnjótandi styrks eins og jarðabætur.

Eg hefi þá minst á helztu brtill., er hafa í för með sér efnisbreytingar, en farið fljótt yfir sögu. Sé eg svo ekki ástæðu til að segja fleira um þetta mál að þessu sinni.