23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2014 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Bjarni Jónsson; Tillaga mín fer fram á það, að breytt sé alstaðar í þingsáltill. útlenda orðinu meter og afbökunum af því, sem þar í finnast og sé það gert í öllum föllum. Þetta eiga allir að geta skilið, að leiðréttingin er fólgin í því að setja inn íslenzku heitin. Tilgangurinn er ekki sá, að tína til allar prentvillur þingsáltill., því að segja má, að hún sé ein prentvilla frá upphafi til enda.

Það er undarlegt að heyra hjá háttv. 2. þm. S. Múl. (J. Ó.), að hann geti ekki lært íslenzku heitin í stikukerfinu, maður, sem nýlega hefir gefið út kenslubók í íslenzku og fengið styrk þar til. Þetta segi eg ekki til þess að rýra þekkingu mannsins, heldur til að sýna, hversu honum er tamt að tala þvert um hug sér.

Sami hv. þm. taldi mér liggja nær að koma með sérstakt frv. um þýðingu á stikukerfinu. Það ætti eg að gera og mundi gera, ef eg óttaðist ekki, að andi hans svifi til mikið yfir vötnunum. Mér þætti vænt um, ef maður svo fróður um íslenzka tungu yrði til að styðja mig um það. Ella er mér óskiljanlegt, hvernig hann fer að gefa út næstu kenslubók í íslenzku og nota önnur eins skrípi.

Annars er engin fyrirhöfn að breyta þessu. Heitin geta engum misskilningi valdið; þau eru lögheimiluð. Þess ber og að gæta, að þetta er að eins þingsályktunartill., og þótt heitin kæmu ekki heim við eldri lög, þá er þingið bært að breyta þeim, og sýnir með breytingunni, að það vill ekki hlíta hinum eldri lögum í þessu.