21.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (2442)

6. mál, fjármál peningamál o. fl.

Flutnm. (Magnús Blöndahl):

Eg hefi komið hér fram með dálitla breytingartillögu, og er það eftir samkomulagi við fleiri háttv. þingm. Það er óþarfi að fara mörgum orðum um till., hún mælir bezt með sér sjálf. Málið er svo stórvægilegt, að það verður ekki of vandlega hugsað. Samskonar nefnd á síðasta þingi vann þó nokkuð á, enda þótt æskilegt hefði verið, að meiru hefði verið afkastað. Sumar uppástungur hennar komust í framkvæmd, og hafa borið góðan árangur, en aðrar náðu ekki fram að ganga, og skal eg t. d. leyfa mér að nefna uppástunguna um milliþinganefnd í peningamálunum. Annars virðist langur formáli óþarfur, við erum allir sammála um, að fjármálum landsins verður að koma í betra horf, en nú er.

Vona eg því að háttv. deild taki málinu vel.