27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2018 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Framsm. (Ólafur Briem):

Þessi tillaga, sem hér er um að ræða er upphaflega frá tolllaganefndinni, en síðan hafa margar breytingartillögur komið fram við hana. Upphaflega voru tillögurnar tvær. Fór önnur þeirra fram á að skipa nefnd til þess að rannsaka, hvort tiltækilegt mundi að auka tekjur landssjóðs með einkarétti á aðfluttum vörum, svo sem kolum, steinolíu, tóbaki o. fl., og er sú tillaga nefndarinnar á þgskj. 631. Hin tillagan var frá bankanefndinni um nefndarskipun til að íhuga peninga- og bankamál landsins.

Til þess að koma samræmi á þetta mál, hefir tolllaganefndin leyft sér að bera fram nýjar tillögur, og eru þær á þgskj. 706 og verða þær tillögur nefndarinnar, sem þar eru, að skoðast sem grundvöllur málsins. Það hafa komið fram 4 breytingartillögur við þessa tillögu á þgskj. 706. Nefndin hefir athugað þær og leggur til, að tillögurnar á þgskj. 723 og 731 verði samþyktar, en aftur er meiri hluti nefndarinnar á móti tillögunum á þgskj. 739 og 741. Þessar tvær síðastnefndu tillögur ganga nokkuð í sömu átt, og snerta fyrirkomulagið á skipun nefndarinnar.

Nefndin vill, að 4 af nefndarmönnum séu kosnir af sameinuðu þingi með hlutfallskosningu, en sá 5. sé tilnefndur af stjórninni.

Tillagan á þgskj. 741, frá háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), fer fram á víðtækastar breytingar. Þar er farið fram á, að tillagan sé að eins frá neðri deild og séu allir nefndarmennirnir kosnir með hlutfallskosningu í sameinuðu þingi.

Tillagan á þgskj. 739, frá h. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fer að því leyti skemra, að þar er að eins hreyft við skipun nefndarmanna, á þann hátt, að þeir séu allir kosnir af þinginu.

Það, sem aðallega vakir fyrir nefndinni, er hún heldur því eindregið fram, að nefndarskipunin sé borin upp í báðum deildum þingsins og formaður nefndarinnar tilnefndur af landsstjórninni, er það, að með þessu fyrirkomulagi sé fengin bezt trygging fyrir góðri samvinnu milli stjórnarinnar og nefndarinnar. En þetta er einmitt afarþýðingarmikið atriði, þar sem nefndinni er ætlað að búa málin í hendur stjórnarinnar, en stjórnin aftur að leggja þau fyrir þingið.

Aðalverkefni hinnar fyrirhuguðu milliþinganefndar er að benda á ráð til þess að útvega landssjóði auknar tekjur og í sambandi við það að rannsaka, hvort haganlegt muni vera, að landið taki einokun á einstökum vörutegundum. Kosturinn við það að afla landssjóði tekna með þessu móti er sá, að með því þarf landsmönnum ekki að vera íþyngt frá því sem áður hefir verið, þar sem á hinn bóginn tollar eru ávalt viðbót við vöruverðið og svo er það ekki óhugsandi, að með því að spara ýmsan kostnað og útgjöld, er leiða af samkepni og sundurgreining starfrækslu milli fleiri smá-atvinnurekenda, sé hægt að láta landsmenn fá þessar vörur með lægra verði en nú, jafnframt því, að landssjóður njóti nokkurs gróða. Þetta er vitaskuld órannsakað mál. Landsmenn hafa árið 1908 borgað um 520 þúsund kr. fyrir alskonar tóbak, þar af er tollur 160 þús. kr., en afgangurinn 360 þús. kr. er sumpart innkaupsverð vörunnar og sumpart gróði seljanda. Hvernig þetta verði, ef landssjóður tekur að sér tilbúning, innflutning og útsölu á öllu tóbaki, er auðvitað ekki hægt að segja með fullri vissu, en ekki er ólíklegt, að landsjóður fengi alt að ? af þessari upphæð, eða þeirri upphæð, sem selt væri fyrir að tollinum frádregnum, enda væri enginn vafi á því, að stórsalar í útlöndum mundu gefa mikinn afslátt, þegar svo mikið væri keypt í einu, en um þetta þarf milliþinganefnd með aðstoð stjórnarinnar að afla sér upplýsinga og gefa áreiðanlega skýrslu um.

Af steinolíu var sama ár innflutt um 18000 tunnur, er seldar voru á 28 kr. hver til jafnaðar, sem sé hér í Reykjavík á 27 kr., en nokkru hærra verð á ýmsum stöðum út um landið. Nú ber þess að gæta, að innflutningur á steinolíu hefir mikið aukist á síðustu árum til mótora og iðnaðar. Ef nú gert er ráð fyrir 4 kr. hag af hverri tunnu, þá ætti það að geta orðið, ef innflutningur fer vaxandi, alt að 100,000 króna, sem landssjóður fengi í tekjur af sölunni, og þegar þess er gætt, að nú má heita einokun á þessari vöru, þá virðist eins vel viðeigandi, að landið hafi hana, eins og prívatmenn.

Af 3. vörutegundinni, kolum, fluttist inn 1908, 58 þús. tonn fyrir 1,400, 000 kr. Sá innflutningur fer vaxandi, og ef gróði á hverju tonni er áætlaður 2 kr., mætti gera ráð fyrir meira en 100 þús. króna tekjuauka fyrir landssjóð.

Þá er breyt.till á þgskj. 731, um niðurröðun efnisins, þannig, að 2. liður verði 1. liður og er sú meining með því, að ætlast er til, að rannsókn einkaréttar-fyrirkomulagsins verði fyrsta verk nefndarinnar og að tillögur hennar þar að lútandi verði lagðar fyrir aukaþingið næsta ár.

Svo er tillaga á þgskj. 723, um, að bæta því verkefni við nefndina, að íhuga verzlunar- og atvinnumál landsins einkum í sambandi við stofnun, starfsemi og reikningsskil hlutafélaga og samvinnufélaga. Þetta stendur að vísu ekki í eins föstu sambandi við fjárhag landsins, en hins vegar vitanlegt, að stórfyrirtæki komast ekki í framkvæmd, nema menn sameini krafta sína.

En nauðsyn er, að allrar varúðar sé gætt við stofnun slíkra félaga, sem og að allir reikningar þeirra séu glöggir og áreiðanlegir og blekki ekki menn hvorki inn á við né út á við — en eins og nú er, er mikill misbrestur á þessu — og get eg því til dæmis nefnt kaupfélögin, sem mörg hver standa á veikum fótum sökum vantandi fyrirhyggju við stofnun þeirra og ófullnægjandi fyrirkomulags að ýmsu leyti.