16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Lárus H. Bjarnason:

Eg vil leyfa mér að geta þess, að eg hefi afhent forseta beiðni um að nafnakall verði haft um þetta mál. Get þess strax, svo að ekki verði rengt, að slík krafa hafi löglega fram komið.

Eins og eg gat um við aðra umræðu, þá er hver sjóður, kirkjusjóður, landsjóður, sveitarsjóður lögpersóna, þannig, að þá sjóði eiga engir tilteknir menn á tilteknum tíma, hvorki gjöldin né eignirnar. En eigi að kasta skuldum slíkrar lögpersónu upp á einstaka menn, mælir öll sanngirni með því, að eins sé farið með eignirnar, að þeir fái þá sinn hlut úr þeim.

Tillaga okkar háttv. 2. þingm. Skagf. á þingskj. 214 er fram komin til að koma þessum jöfnuði á. En jafnframt að opna augu hinna geistlegu manna fyrir hinni hlið málsins. Þeir sjá ekki nema aðra hliðina á því, þá hliðina, sem að kirkjunni veit. Þeir sjá ekki hina hliðina, þá, sem að söfnuðunum veit. En um sanngjarna málsmeðferð er því að eins að ræða, að báðar hliðar séu jafn vendilega skoðaðar.

Eg skal nú reyna að lesa frumvarpsgreinina niður í kjölinn. Verði frumvarpið að lögum, nær ákvæði þess ekki að eins til lána, er framvegis kunna að verða tekin, heldur og til þeirra, er nú þegar eru tekin. Það nær jafnt til þeirra lána, sem sá, er úr kirkjunni gengur, hefir ekki komið nærri að stofna, sem til hinna, er hann hefir tekið þátt í að taka. Og það eitt út af fyrir sig er óhæfilega ósanngjarnt, og ekki nóg með það, hann á að borga sinn hlut út allan í einu, hversu há sem skuldin er. Það gæti gert mönnum ókleyft að komast úr kirkju, er þeir þó ekki vildu í vera, og mundi geta bakað þeim, er ráð hefðu á því að yfirgefa skulduga kirkju efnatjón. Væri t. d. farið að reisa steinkirkjur í fámennum söfnuðum, gæti skuldarhluti eins manns numið hundruðum króna. Það hefir verið bent á, að þetta ákvæði eigi ekki við aðra en þá, sem úr kirkjunni ganga og eru kyrrir á safnaðarsvæðinu. En hvaða ástæða er til þess að vera að gera upp á milli manna eftir því, hvort þeir eru hérna eða hinumegin við ána. Því er það ekki látið ná til allra, eins til þeirra sem flytja í annan landsfjórðung eða önnur lönd. Er verið að straffa mennina fyrir að flytja ekki útaf sóknarsvæðinu? Og loks má benda á, að frv. á aðeins við þá sem ganga í utanþjóðkirkjusöfnuð eða fríkirkjusöfnuð, en hinir, er í engan söfnuð ganga, sýnast eiga að vera lausir allra mála. Afleiðingin af því, að þetta frumvarp yrði að lögum, yrði sú; og það vita hinir geistlegu menn vel, að með því væri lagður steinn í götu fríkirkjunnar hér á landi.

Með frumvarpi þessu hefir verið brotið það lögmál, að safnaðarkirkja hver er lögpersóna, sem öllum safnaðarmönnum, á hvaða tíma sem er, er jafnskylt að standa straum af. En það er ekki brotið minna á annan veginn. Skuldum velt yfir á úrgengna safnaðarmeðlimi, en eignunum haldið fyrir þeim. Til þess nú að hafa „Methode i Galskaben,“ eins og Danskurinn segir, þá hefði átt að gefa þeim líka þátt í eignunum. Það gerir breytingartillaga okkar háttv. 2. þm. Skagf. og sýnir væntanlega jafnframt flutningsmönnum frumvarpsins, hve aðgengilegt það er rétt rakið.

Þeir herrar, sem í nefndinni sitja, hafa blínt um of á hagsmuni kirkjunnar. Brt. opnar væntanlega augu þeirra fyrir hagsmunum safnaðarmanna. Yrði sami maður ef til vill að standa straum af 2 kirkjum, sinni eigin kirkju og þeirri, sem hann gekk úr. Hann yrði þá að bera byrðar kirkju, sem hann ekki vildi vera í og sem hann eftir guðs og manna lögum á ekkert að hafa saman við að sælda.

Eg skal engu spá um afdrif frumvarpsins hér í deildinni en komist það héðan, er það mín innileg ósk, að háttvirt Neðri deild geri því makleg skil.