28.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

19. mál, Landsbankarannsókn

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg hefði getað skilið það, ef tillaga þessi hefði komið fram í byrjun þings og áður en Ed. hafði málið til meðferðar En nú finst mér hún alveg óþörf. Það er dálítið skrítið, að skipa tvær nefndir til þess að rannsaka sama málið. Það er á sinn hátt, eins og ef afbrot væri drýgt og tveir rannsóknardómarar væru skipaðir til þess að rannsaka sama glæpinn samtímis. Ef nefnd verður skipuð, þá getur svo farið, að báðar nefndirnar stefni sama manninum fyrir sig sama daginn og heimti af honum sömu upplýsingar. En hvað er það, sem nefndin á að rannsaka? Á hún að rannsaka bankamálið að nýju? Tillagan þegir alveg um þetta atriði. Eins og nú standa sakir, er ekkert vit í að setja nefnd í málið. Eg legg til, að það sé tekið út af dagskrá.