16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Ráðherra (Kr. J.):

Eg er ekki hrifinn af þessu frumvarpi, en læt það þó liggja á milli hluta að þessu sinni. Eg mun ekki taka það nærri mér, þótt það falli.

En eg ætlaði að minnast á breytingartillöguna örfáum orðum. Mér sýnist hún varhugaverð. Eignir eða sjóðir kirkna geta verið misjafnlega miklir, segjum 1000 kr. eða 2000 kr. eða 5000 kr. Enn getur tala íbúanna í kirkjusóknunum verið misjöfn, 50 manns, 100 manns, 200 manns o. s. frv. Ef breytingartillagan verður samþykt, getur hún gefið tilefni til, að menn fara að hugsa um, hvort hér sé ekki hægt að afla sér fjár með léttu móti. Menn hugsa sem svo: „Hér er all-álitlegur sjóður. Get eg ekki náð í eitthvað af fjáreign hans?“

Eg sé ekki betur, en að hér sé verið að leggja agn fyrir almenning með slíkum ákvæðum, og má óttast, að ýmsir kynnu að verða til að hlaupa eftir því. Eg er frumvarpinu sjálfu ekki heldur meðmæltur, og þykir vandséð, hvort það er bót á gildandi lögum um þetta efni. Eg hefi þó heldur ætlað að styðja það en hitt, en segi þó ekki neitt um það að svokomnu máli.