16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Framsögumaður Kr. Daníelsson:

Eg býst við, að mér takist heldur ófimlega að deila við löglærða menn um lögskýringar og lagaþýðingar. Hv. 5. kgk. þm. leggur mikla áherzlu á lögpersónuhugtakið. Eg skal fúslega kannast við, að eg kann ekki að útlista þetta hugtak eða skýra með vísindalegri nákvæmni, hvað í því felst. En í lagavísindum, sem fleira, mun svo vera, að þegar til framkvæmdanna kemur, verða að komast að ýmsar undantekningar og afbrigði frá því, sem vera kann meginregla, án þess gildi þeirrar reglu í heild haggist fyrir það. Ef þetta er borið saman við sveitarfélög og það, er þar á sér stað, sést, að þetta er ekki ósanngjarnt. Engin lög skipa söfnuðunum að taka að sér kirkjurnar. Það hefir náðst samkomulag um, að söfnuðurinn tæki þær að sér — söfnuðurinn hefir sjálfur samþykt að standa straum af þeim og sjá um þær. Öðru máli er að gegna um sveitarfélög. Lögum samkvæmt verður hver, sem er í hreppnum, að vera meðlimur þess, og hlíta lögum þess. Hver safnaðarmeðlimur hefir undirgengist og skuldbundið sig til að halda kirkjunum við og hann verður að efna þá skuldbinding. Það er því dálítið skrítið, að tala um gerræðisverk í þessu sambandi. Þar sem hv. 5 kgk. þm. (L. H. Bj.) talaði um ósamræmi í frumv., þá getur verið, að það sýnist svo, ef litið er á málið í fljótu bragði, en því er ekki þannig farið, ef málið er rakið út í yztu æsar.

Þar sem háttv. sami þm. fann það klerkum og biskupi til ámælis, að þeir hugsuðu að eins um hag kirkjunnar, þá á það heldur illa við. Fyrst og fremst er það ekki óeðlilegt, að sú stétt hlynni að þeirri stofnun, sem hún starfar fyrir og þjónar, líkt og hv. þm. reynir á allan hátt, að hlynna að þeirri stofnun, lagaskólanum, er hann þjónar. En eg verð að mótmæla því, að það sé kirkjan, sem við biskup og prestar hugsum eingöngu um og „per fas nefasque“ viljum hlynna að. Það eru safnaðarbrotin, sem eftir verða, sem við hugsum um og höfum hér sérstaka ástæðu til að vilja girða fyrir, að ofþungar byrðar lendi á. Á þeim hvílir sama skylda og öllum söfnuðinum, sem áður var. Eg get ekki séð, að það sé rétt hjá hv. þingm., er hann virtist vilja leggja mikla áherzlu á, að ef til vill helmingur safnaðarmeðlima hefði ekki samþykt kröfur þær, er gerðar eru á hendur söfnuðinum. En hver sem gengur inn í söfnuðinn, gengst um leið undir allar gerðir hans. Og þetta ákvæði á að tryggja, að menn geti ekki skotið sér undan því, er þeir þannig hafa tekið sér á herðar. Við viljum ekki, að þeir, sé straffaðir, sem eru eftir í söfnuðinum.

Hv. 5. kgk. þm. (L. H. Bj.) lítur einhliða á þetta mál. Hann bendir ekki á það, sem er til bóta í frumv. Það er eins og hann vilji „per fas nefasque“ verða því að bana. Eg skal játa, að breytingar frumv. eru ekki annmarkalausar, en þær eru nauðsynlegar, eins og nú horfir við í þessu efni. Það er ekkert gagn í þessu laga-nýmæli, ef það verður spjallað með þeirri breytingartillögu, er hér liggur fyrir.