24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Framsm. meiri hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eins og nefndarálitið ber með sér, heldur meiri hl. nefndarinnar því fram, að það beri að hlýða fógetaúrskurði þeim, sem setti gæzlustjórana inn í starf sitt við landsbankann, meðan enginn úrskurður æðri dómsvalds á málinu breytir honum. Nú er þess að gæta, að með úrskurði þeim frá 4. jan. 1910, sem setur gæzlustjórana inn í landsbankann, sem löglega gæzlustjóra, heldur fógeti því fram, að afsetningin hafi ekki verið fullnaðarafsetning, en að eins bráðabirgðaráðstöfun, sem að sjálfsögðu félli úr gildi, um leið og nýju bankalögin gengu í gildi 1. jan. 1910. Landsbankinn lét sér nú ekki lynda þennan úrskurð, heldur áfrýjaði honum til landsyfirréttar, en yfirdómurinn staðfesti úrskurð fógeta.

Málaflutningsm. ráðherra hefir haldið því fram, hvað eftir annað í þessu máli, að frávikningin væri til fullnaðar, en alls ekki um stundarsakir. Af þessu varð eg dálítið hissa á því, að heyra fyrv. ráðh. (B. J.) um daginn í efri deild, þegar mál þetta var þar til umræðu, halda því fram, að frávikningin hefði ekki verið fyrir fult og alt, meðal annars væri það skýrt tekið fram í afsetningarskjalinu. Mér þykir þetta dálítið undarlegt, sagði eg, einkum af því, að háttv. fyrv. ráðh. (B. J.) hlýtur að vita það, að það sem málaflutningsmaður aðila heldur fram eða viðurkennir fyrir. rétti, það er bindandi fyrir málsaðilann, sem hann er fyrir, enda hefir fyrv. ráðh. (B. J.) svo að orði kveðið í umboðsskjali sínu til málflytjanda síns, að alt sem hann segir og gerir í málinu, skuli vera svo gilt og bindandi, sem umbjóðandi hefði það sjálfur sagt og gert. Það er því sama sem háttv. fyrv. ráðherra (B. J.) hafi sjálfur lýst yfir því fyrir dóminum, að frávikningin væri fyrir fult og alt. Og á þessu hefir yfirdómur því bygt, því að þar kom þessi viðurkenning fram, og er það samkvæmt fastri »processuel« reglu.

Fógetaúrskurðir, slíkir sem þessir, eru þess eðlis, að þeim ber að hlýða, þangað til æðri dómur hefir felt þá. Nú ber þess að gæta, að landsyfirdómurinn staðfesti í einu hljóði fógetaúrskurðinn, eins sá dómarinn, er hæstv. ráðherra (B. J.) hafði tilnefnt í dóminn. Því að þess er vert að minnast, að hann, málsaðilinn, skipaði sjálfur setudómara í yfirrétt. Úrskurðinum ber því að hlýða, og þannig lítur meiri hluti nefndarinnar á. Landsbankastjórnin hefir nú aftur á móti neitað að kannast við þann gæzlustjóra, sem inn er settur, sem löglegan gæzlustjóra. En þótt að eins annar gæzlustjórinn leitaði fógetaúrskurðar, þá er það vafalaust, að sama rétt eiga báðir að lögum, því þessi deild hefir sama rétt um sinn gæzlustjóra, sem Ed. um sinn.

Aðferðir landsbankastjórnarinnar og ráðherra hafa því ekki verið til annars gerðar, en til að reyna að villa mönnum sjónir um þetta mál, því réttur þingsins er óhagganlegur.

Þá skal eg minnast lítið eitt á sakir þær, sem rannsóknarnefndin ber fram, og sem réttlæta á frávikninguna.

Nú stendur raunar þetta mál þannig af sér, að landsstjórnin hafði engar sakir á gæzlustjórana, þegar þeim var vikið frá 22. nóv. 1909, því þá hafði rannsóknarnefndin ekki lokið störfum. En þótt einhverjar hefðu verið, þá heimilaði það á engan hátt umboðsvaldinu að gera það, sem ekki er heimilt að lögum.

Eg minnist þess, að rétt eftir nýjárið 1910, var þess getið í Ísafold, — er talað var í blaðinu um ofstæki það og yfirgang, sem gæzlustjórinn Kristján Jónsson sýndi með því að leita til dómstólanna til að ná rétti sínum — að þá væri þó munur á aðferð hins gæzlustjórans, Eiríks Briems, sem að sjálfsögðu mundi leita réttar síns á alþingi, því að það væri hið rétta »forum« fyrir þetta mál. Þá áleit stjórnarblaðið, að þingið væri hið rétta »forum«, en nú á þingið engan rétt að hafa — nú eru það dómstólarnir! — Nei, gæzlustjórarnir verða auðvitað að bera ábyrgð fyrir sínum umbjóðanda, og umbjóðendur þeirra eru þingdeildirnar, hvor um sig, og þennan rétt getur þingið ekki gefið eftir.

Minni hluti nefndarinnar vill láta þetta mál bíða, þangað til nefnd sú, er skipuð hefir verið hér í deildinni, til að rannsaka bankamálið, hefir lokið störfum sínum, en slíkt er ástæðulaust með öllu, því sú nefnd mun á sínum tíma koma fram með álit sitt, og ef svo skyldi þá fram koma, að eitthvað vítavert fyndist hjá gæzlustjórunum, þá hagar þingið sér auðvitað eftir því, — en eins og málið nú liggur fyrir, verður þingið að halda í heiðri þeim rétti, sem það hefir, og landsstjórnin hefir með ólögum traðkað.

Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni, eg hefi reynt að forðast að tendra í því gasi, sem mér virðist liggja hér í loftinu — þó ekki meini eg þar með gaslampana, sem hanga hér niður úr loftinu — og vonast eg einnig til, að aðrir ræðumenn, sem kynnu að tala í þessu máli, gæti allrar rósemi og stillingar.