26.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Björn Jónsson:

Eg þarf ekki að vera langorður að þessu sinni, því eg hefi gert grein fyrir minni afstöðu til þessa máls í Ed., þegar það var þar til umræðu. Þó vil eg taka fram tvö atriði. Fyrst það, hvort stjórnin hafi haft leyfi til þess lögum samkvæmt að víkja gæzlustjórunum frá 22. nóv. 1909. Það held eg í rauninni enginn efist um, að lagaheimild hafi verið til, — en svo segja þeir herrar, mótstöðumennirnir, að sú afsetning hafi ekki getað staðið lengur en til l. janúar 1910, er hin nýju bankalög gengu í gildi. — En tökum nú til dæmis, að gæzlustjórunum hefði verið snarað í gæzluvarðhald eða þeir dæmdir í margra ára hegningarvinnu, það er að eins hugsað dæmi. Hefði þá átt. að taka þá úr hegningarhúsinu aftur, þegar hin nýju lög gengu í gildi og setja þá inn í bankann aftur sem gæzlustjóra? Eg held að slíkt gæti ekki komið til mála. — Þingið getur að eins á þessu stigi málsins látið í ljósi annaðhvort velþóknun sína eða vanþóknun á þessari stjórnarráðstöfun, meira getur það ekki gert.

Framsögumaður vildi halda því fram, að frávikning stjórnarinnar hefði verið fyrir fult og alt, en þar til er því að svara, að í sjálfu frávikningarskjalinu er vitnað í þá grein í bankalögunum frá 1885, sem tilnefnir að eins frávikningu um stundarsakir, það var ekki fyr en síðar, sem stjórnin úrskurðaði, að frávikningin skyldi einnig gilda eftir 1. janúar 1910 um ótiltekinn tíma. Að stjórnin hafi ekki haft neina ástæðu fyrir sér, er hún úrskurðaði frávikninguna 22. nóv., er alls ekki rétt.; Stjórnin sá altaf þegar hún vildi bækur rannsóknarnefndarinnar, enda hafði hún þá lokið þeim störfum, en átti að eins eftir að orða nefndarálitið, og nefndin fann engar stórsakir eftir 22. nóv. Eg álít það ekki rétt, að þingið kveði upp dóm í þessu máli, fyr en rannsókn hefir fram farið, en að málinu rannsökuðu er það að sjálfsögðu skylda þingsins að segja sitt álit um málið.

Hinn nýi ráðherra (Kr. J.) telur sjálfsagt, að gæzlustjóri Nd. verði settur inn og er þá hlægilegt að skora á hann að gera það. Hin virðulega þingdeild mundi misbjóða virðingu sinni með slíkri áskorun, þar sem hinn nýi ráðherra telur innsetninguna ekki einungis löglega, heldur jafnvel sjálfsagt skylduverk stjórnarinnar og íhlutun deildarinnar því allsendis þarflausa.

Virðul. framsögum. meiri hl. (J. Ó.) talaði eitthvað í þá átt, að stjórnin hefði ekki fremur haft heimild til þess að víkja gæzlustjórunum frá, en forseta þessarar deildar. Allir hljóta að sjá, hver fjarstæða þetta er. Stjórnin hefir eftirlitsvald með gæzlustjórunum, en ekki með forseta og það gerir greinarmuninn. Þessi samanburður er því með öllu villandi og blekkjandi.

Eg get sagt mína skoðun um þetta mál í fám orðum. Virðuleg deild getur að rannsökuðu máli kveðið upp þann úrskurð, að frávikningin hafi verið ástæðulaus og samkvæmt því skorað á stjórnina að setja gæzlustjórann inn aftur. Deildin getur einnig látið hjá líða að koma fram með slíka áskorun, ef henni virðist rannsókn benda til þess, að embættisræksla gæzlustjórans hafi ekki verið vítalaus.

Þótt virðul. framsögum. meiri hl. (J. Ó.) staðhæfði, að sú skoðun eða skilningur á máli, sem málaflutningsmaður lýsti yfir fyrir rétti, væri skuldbindandi fyrir málsaðila, þá munu snjallari lagamenn en hann er, líta öðru vísi á það mál. Mér er ókunnugt, hvernig á því stendur, að málaflutningsmaður stjórnarinnar lét þá skoðun í ljósi, sem hér ræðir um, enda get eg ekki séð, að það snerti á neinn hátt málið eða geti ráðið úrslitum þess.