27.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Ráðherrann (Kr. J.):

Nokkur orð hins háttv. þm. Barð. (B. J.) knýja mig til þess að taka til máls, þótt eg hafi eigi annars ætlað mér það. Hann sagði, að eg væri alráðinn í að setja gæzlustjóra neðri deildar inn, það væri fullráðin stjórnarathöfn af minni hendi. Þetta er rangt. Stjórnarráðið hefir enga ákvörðun tekið í þessu máli. Eg hefi litið svo á, að sjálfsagt væri að bíða eftir úrskurði þessarar háttv. deildar, það er hennar að segja, hver er löglegur gæzlustjóri og hver ekki. Þingið á einkadóm á því máli, hver er þjónn þess og hver ekki. Allir aðrir dómar um það mál eru þýðingarlausir. Eg skal ekki minnast á einstök atriði, þótt ræða háttv. þm. Barð. (B. J.) gæfi tilefni til þess. Eg býst við, að bæði hv. framsögum. og aðrir muni koma fram með allar nauðsynlegar upplýsingar og deildin svo kveða upp dóm sinn, eins og hún á að gera, stjórnarvöldunum til leiðbeiningar.