24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Skúli Thoroddsen:

Afstaða mín til þessa máls er þannig, að þegar fyrv. ráðh. (B. J.) skipaði rannsóknarnefndina í bankamálinu, þá var eg því ekki mótfallinn, þó að mér þætti aðferðin óhyggileg. Eg leit svo á, að það hefði verið heppilegast bæði fyrir bankann og viðskiftamenn hans, að ráðherra hefði í kyrþey leitað sér upplýsinga um hag bankans. Þegar svo að því kom, að gæzlustjórunum var vikið frá 22. nóv. 1909, þá leit eg svo á, sem hér væri beitt aðferð, er væri alt of hörð gagnvart gæzlustjórunum, þar sem allir hlutu að játa, að aðalábyrgðin hvíldi ekki á þeim, heldur á framkvæmdarstjóra. Eg leit ennfremur svo á, að frávikningin gæti að eins verið um stundarsakir samkvæmt bankalögunum frá 1885, og gerði eg ráð fyrir í blaði mínu,að hún mundi verða upphafin 1. jan. 1910, sérstaklega þar sem bankalögin frá 1909 að minni hyggju ekki heimila frávikning gæzlustjóranna. Þar er kveðið svo á beinum orðum, að víkja megi framkvæmdarstjóra frá, en þess er eigi getið um gæzlustjórana og er því hér að ræða um sönnun »e contrario« fyrir því, að gæzlustjórunum megi ekki víkja frá. Eg áleit því, að rétti gæzlustjóranna hefði verið traðkað og þótt þeim hefði orðið eitthvað á í starfsemi þeirra við bankann, þá hefði stjórnina brostið lagaheimild til þess að láta frávikninguna gilda lengur en til ársloka 1909. Eg hafði því þá skoðun í þingbyrjun, að réttast væri að útkljá þetta ófriðarmál, sem hefir valdið svo miklum óróa um land alt, með því að setja gæzlustjórana inn.

Háttv. fyrv. ráðh. (B. J.) hefir og látið í ljósi í efri deild, að ástæðan til frávikningarinnar hafi aðallega verið sú, að gæzlustjórarnir hafi verið til tálma fyrir starf rannsóknarnefndarinnar, en sú ástæða féll burt á sömu stund, sem nefndin hafði lokið störfum sínum. Eg hygg, að það hafi verið hiti sá og æsingur, er mál þetta hafði vakið, sem olli því, að frávikningin var ekki hafin þá.

Slík var þá mín skoðun í þingbyrjun, að rétti gæzlustjóranna hefði verið traðkað og að sjálfsagt væri að rétta hlut þeirra. En nú get eg ekki betur séð, en að margt hafi breytst síðan. Þegar eg kom fram með þingsályktunartillögu þá, sem hér liggur fyrir, vakti það talsverða óánægju og mér var borið ýmislegt á brýn. Svo var rannsóknarnefndin skipuð og var þá ekki nema eðlilegt, að beðið væri þangað til hún hefði lokið störfum sínum.

Í sambandi við þetta vil eg geta þess, að þegar eg var tilvonandi ráðherra bar á góma um þetta og varð eg þess var, að ýmsir vildu, að úrslit þessa máls biðu, þangað til hæstaréttardómur væri fallinn. Eg svaraði því svo, að sjálfsagt væri að fullnægja þingsályktunartillögu efri deildar og ef eg hefði orðið ráðherra, þá hefði eg sett gæzlustjórana inn. En eg verð að taka undir með háttv. þm. Barð. (B. J.), að nú horfir alt öðru vísi við. Þá var gæzlustjórunum varnað af stjórninni að taka sæti í bankanum og gegna þar störfum sínum, en núverandi ráðherra álítur það skyldu stjórnarinnar að setja þá inn. Og hvers vegna ættu menn þá að skora á stjórnina að framkvæma það, sem hún sjálf telur skyldu sína. Áður en ráðherraskiftin urðu, gat slík áskorun verið til þess að hjálpa þessum mönnum til þess að ná rétti sínum, en nú er hún ekki til neins annars en að útvega heimastjórnarmönnum efni til þess að skrifa um fyrir fólkið. Áður var um réttlætisverk að ræða, en þetta er ekki annað en pólitískur leikur á borði. Eitt hið fyrsta embættisverk núv. ráðh. (Kr. J.) var að skipa landsbankanum að veita þegar í stað viðtöku gæzlustjóra efri deildar! Það er furðulegt, úr því að hann mundi svo vel eftir sjálfum sér, að hann skyldi ekki muna eftir embættisbróður sínum um leið, en sjálfsagt er það ekki annað en gleymska, sem hann er viss með að bæta úr nú, þegar hann er mintur á það. En sé svo, að þingsályktunartillagan eigi að veita gæzlustjóra Nd. uppreisn, þá verð eg að segja, að Ed. hefir þegar veitt báðum gæzlustjórunum uppreisn. Og ekki eingöngu Ed. hefir gert það, heldur einnig konungur, þar sem hann hefir gert annan gæzlustjórann að ráðherra, og þar með dregið stórt stryk yfir alt, sem þeim var gefið til saka. Hvernig geta þessir menn fengið fullkomnari uppreisn? Nd. hefir sannarlega engu hér við að bæta, enda má óhætt fullyrða um annan gæzlustjórann að minsta kosti, að hann muni meta meira uppreisn frá konungi en frá alþingi. Hann hefir sýnt, að honum er ekki svo ant um vilja þingsins.

Enn er þess að geta, að rannsóknarnefndin hefir enn ekki lokið störfum sínum. Hvers vegna á þá að flýta þessu .máli svo mjög? Raunar sagði háttv. framsm. (J. Ól.), að ef rannsóknarnefndin fyndi eitthvað athugavert við embættisrækslu gæzlustjórans, þá væri hægt að koma fram með það seinna. En þá aðferð tel eg mjög kynlega, og hefir mér því hugsast, að réttast væri að afgreiða málið með svohljóðandi rökstuddri dagskrá:

»Með því að nefnd sú, er neðri deild alþingis skipaði til þess að rannsaka landsbankamálið hefir enn ekki lokið störfum sínum, og ekki sízt þar sem máli þessu víkur nú eftir ráðherraskiftin alt öðru vísi við, en þegar þingsályktunartillagan var borin fram, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskránni.»

Í mínum augum mælir það aðallega móti þingsályktunartillögunni, að málið horfir nú alt öðru vísi við en í þingbyrjun. Það sem áður var þarft og sjálfsagt réttlætisverk er nú ekkert annað en »númer« handa heimastjórnarritstjórunum. Eg tek það enn fram, að það er þessi breytta »situation«, sem stjórnar framkomu minni; eg tel sjálfsagt, að ráðherra setji gæzlustjórann inn og þó að hann segði, að stjórnin hefði ekkert afráðið um það, þá vitum við allir hug hans í því máli. (Ráðherrann (Kr. J.: Eg sagði stjórnarráðið!) Eg veit ekki betur en að ráðherra sé húsbóndi stjórnarráðsins og að því sé skylt að framkvæma skipanir hans. En þar sem ráðherrann sagði, að neðri deild væri einkadómari í þessu máli, þá er það rangt; stjórnin veik gæzlustjórunum frá, og hún getur því einnig hafið frávikninguna. Yfir höfuð er engan greinarmun hægt að gera milli gæzlustjóranna. Þeim var báðum gefið það sama að sök, og úr því að annar þeirra hefir verið settur inn, þá er sjálfsagt að setja hinn inn líka.