24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Björn Jónsson:

Eg veit ekki, hvort eg má tala í þriðja sinn, en þar sem eg er nokkurskonar sakborningur í þessu máli, þá vil eg þó fara þess á leit. (Forseti: Jú).

Eg vil þá leyfa mér að leiðrétta ýmislegt af því, sem framsm. meiri hl. (J. Ól.) sagði. Hann ákærði mig fyrir það, að nefndin hefði ekki fengið ýms plögg, sem bankarannsóknarnefndin hefir undir höndum, og eg hefði þar með tafið fyrir þingnefndinni. Það sem mér er kunnugt um þetta mál, er, að það var borið undir mig sem ráðherra, hvort afhenda skyldi gerðabók bankanefndarinnar, sem var forsigluð með innsigli formanns nefndarinnar, og úrskurðaði eg, að brjóta skyldi innsiglið og afhenda gerðabókina. Annað hefi eg ekki gert í þessu máli. Aðra bók, sem talað hefir verið um, svonefnda matsbók, þar sem ýmislegt stóð í, sem ekki mátti koma fyrir augu almennings, þekki eg ekki. Hygg það hafi ekki verið annað en minnisbók nefndarmanna, sem þeir hafi skrifað upp hjá sér til minnis fyrir þá sjálfa. Enda hefði það verið brot á þagnarskyldu þeirra gagnvart þeim mönnum, sem létu þeim í té ýmsar nauðsynlegar skýrslur og skýringar um viðskifti bankans. Engin önnur lögleg fundabók var til, en sú, sem þingnefndin hefir fengið í hendur.

Þá á stjórnin að hafa óhlýðnast fógetaúrskurðinum frá 6. jan. 1910. Það var formaður nefndarinnar, háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.), sem kom með þetta. Eg hefði sízt búist við, að lagamaður mundi koma með annað eins og þetta. Hann veit, að úrskurðurinn hljóðaði þannig, að háyfirdómari Kristján Jónsson skyldi hafa aðgang að bókum og skjölum bankans, en það stendur hvergi, að hann skuli vera gæzlustjóri bankans; og þessum úrskurði hefir verið nákvæmlega hlýtt.

Þá á það að vera vítavert (Jóh. Jóh.: Eg sagði ógeðfelt), að skjóta þessum úrskurði til æzta dómstóls landsins, þó hann sé í öðru landi. Þetta er hlægilegt. Og þetta á að vera af þjóðrækni. Nú hefir maður tapað hér fyrir rétti 100 þúsund kr. skuldakröfu og hann telur sér víst að vinna það mál, ef hann áfrýjar dómnum til æzta dómstóls landsins, en af því þessi dómstóll er í öðru landi, þá á hann nú að gera sér að góðu að missa þessar 100 þús. kr., heldur en skjóta málinu þangað. Það er heilvita mönnum ósamboðið að koma með aðra eins fjarstæðu og þetta.