24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Ráðherrann (Kr. J.):

Út af hinni fyrri ræðu háttv. þm. Barð. (B. J.) skal eg enn taka það fram, að 22. nóv. 1909 sagði hann berum orðum við mig uppi í stjórnarráði, að afsetningin væri fyrir fult og alt. Út af þessum ummælum hans reit eg honum bréf, sem birt var í flestum blöðum landsins, og er það órækur vottur þess, að samtalið hefir átt sér stað og á þann hátt, sem eg hefi nú frá skýrt.

Lögin segja það bert, að eftir 1. jan. 1910 séu tveir menn kosnir af alþingi gæzlustjórar við landsbankann; eg og Eiríkur Briem vorum þessir menn, því að við féllum beint undir ákvæði laganna, eins og þau eru skýr og óbrjáluð. Að tala um, að afsetningin hafi áhrif á ákvæði laganna og geti breytt þeim eða vikið þeim við, er fjarstæða og barnaskapur. Það hefði verið annað mál, ef gæzlustjórarnir, hinir þingkjörnu, hefðu verið í þeim kringumstæðum við byrjun ársins 1910, að þeir hefðu ekki verið hæfir til að taka við starfa sínum. Það var ráðgert að höfða sakamál gegn okkur, vitanlega til þess að réttlæta afsetninguna, en lengra komst það ekki, en til ráðagerðar; varð ekkert úr henni.

Eftir bankalögunum frá 1909 eru gæzlustjórarnir ekki embættismenn í eiginlegum skilningi. Þeir eru starfsmenn og trúnaðarmenn alþingis, og má setja þá á borð við endurskoðunarmenn landsreikninganna. Þess vegna eru þeir ekki á sama hátt sem embættismenn, undir eftirliti landsstjórnarinnar. Til þess þingdeildin haldi sóma sínum og virðingu, þá verður hún að sjá svo um, að sá gæzlustjóri, sem hún hefir kosið, fái að framkvæma starf sitt í bankanum.

Háttv. þm. Barð. (B. J.) talaði um bækur rannsóknarnefndarinnar. Þessar bækur eru eign landsstjórnarinnar og annara ekki. Stjórnin hefir bygt á þeim úrskurð sinn. Það verður að heimta, að þær liggi í stjórnarráðinu og það verður sjálfsagt reynt að koma því í það horf, að þær verði þar eftirleiðis og býst eg við, að ráðstafanir verði gerðar í þá átt.

Þá hefir frámunalegur misskilningur komið fram á því, hvað feldist í fógetaúrskurðinum frá 4. janúar 1910. Fógetaúrskurðurinn er ekki að eins úrskurðurinn sjálfur, ?: niðurlag hans, heldur og líka forsendurnar, því í þeim er skýrt frá, hvað sé gildandi lög um þetta efni, og í forsendum úrskurðarins er það skýrt tekið fram, að maður sá, er þar er nefndur, sé löglegur gæzlustjóri við landsbankann, eftir kosningu alþingis, — og þá getur enginn annar verið það. Um þetta eru dómsúrskurðirnir alveg ljósir og ótvíræðir.