24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2050 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Björn Jónsson:

Eg skal stuttlega drepa á, að þessu samtali, sem hæstv. ráðherra (Kr. J.) talaði um að hefði farið fram milli mín og hans uppi í stjórnarráði 22. nóv. 1910, man eg alls ekki eftir. Hver og einn hefir leyfi til að trúa þeim, sem hann vill, en eg minnist ekki, að eg hafi nokkurntíma talað þessi orð, sem hann hefir eftir mér.

Það er ranghermi, að eg hafi ætlað að höfða sakamál gegn bankastjórninni. Það er án minnar vitundar, hafi verið talað um slíkt.

Gæzlustjórarnir eru starfsmenn við stofnun, sem landsstjórnin er skyld að hafa eftirlit með, og eru því ekki óafsetjanlegir, hvað sem þeir hafast að, og hvernig sem á stendur. Því þó því sé haldið fram, að þeir séu óafsetjanlegir, þá getur það ekki merkt það, að þeir séu löglegir, hvernig sem á stendur, því engir nema dómendur eru óafsetjanlegir eftir stjórnarskránni. Þingið hefir ekki framkvæmdarvald. Það hefir ályktunarvald, þannig að það getur skorað á stjórnina að gera hitt eða þetta.