24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Bjarni Jónsson:

Fyrirspurn mín var svo ljós, að hún hefði átt að vera öllum skiljanleg; eg vildi að eins fá að vita, hverjar afleiðingarnar yrðu, ef hin rökstudda dagskrá yrði samþykt. Mér virðist augljóst, að núverandi ráðherra ætli sér ekki að seta gæzlustjórann inn, hann mundi þegar hafa gert það, ef það væri ætlun hans. Háttv. þm. Ísf. (Sk. Th.) taldi það óþarft af neðri deild að skifta sér neitt af þessu máli nú eftir ráðherraskiftin. En þá hafa líka allar þessar löngu umræður verið óþarfar. Fyrir mér vakir það eitt, að sá maður, sem hér á hlut að máli, nái rétti sínum.