24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Framsm. minni hl. (Benedikt Sveinsson):

Eg vil að eins leyfa mér að gera örlitla athugasemd við eitt atriði í ræðu hins hv. frams. meiri hl. (J. Ól.). Hann gat þess, að nefndin hefði komið sér saman um að gefa út nefndarálitið í smáköflum. Þetta er ekki rétt, nefndin hefir enga ákvörðun tekið í þessu efni, en hitt er satt, að hv. framsm. kom upp með þetta á nefndarfundi í morgun, en ekki tóku aðrir nefndarmenn afstöðu til þess.

Úr því eg stóð upp, vil eg leyfa mér að benda á, hvað kynlegt það er, að þótt hæstv. ráðherra telji ekki neinn löglegan gæzlustjóra nema Eirík Briem, þá hefir hann þó ekki ennþá sett hann inn í embætti sitt. (Ráðherra: Það er úrræðaleysi þingsins að kenna!). Eg vildi benda á, að ráðherra er hér í mótsögn við sjálfan sig og gerir sig sekan í hinu sama, sem hann hefir mest áfelt fráfarandi ráðherra fyrir. Honum var legið á hálsi fyrir það, að setja ekki gæzlustjórana inn í starf sitt. Núverandi stjórn vill ekki heldur framkvæma þetta sjálfsagða réttlætis- og skylduverk sitt, sem hún kallar í öðru orðinu, og vill að þingdeildin taki af sér vandann.