16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Framsögumaður Kristinn Daníelsson:

Háttv. þm. Skagf. (Jós. Bj.) talaði fremur á móti frumvarpinu en með breytingartillögu sinni. Þar sem hann mintist á eða talaði í þá átt, að menn kæmi inn á sóknarsviðið, þar sem alt væri samþykt áður og þeir hefðu engin áhrif haft á þær samþyktir, þá er hér til að svara, að þeir koma þangað vitandi vits, vita, í hvaða félagsskap þeir ganga. Enn sagði sami háttv. þm., að verið gæti, að maðurinn hefði sjálfur verið í sókninni, en verið sjálfur mótfallinn þeirri samþykt, er batt honum þá skuldbinding á herðar, sem veldur því, að hann verður að greiða einhverja upphæð, er hann fer úr þjóðkirkjunni. Þetta getur auðvitað vel komið fyrir, en eg sé ekkert athugavert við það. Slíkt gerist alstaðar, þar sem lögbundinn meiri hluti á að ráða úrslitum mála. Slíkt er sjálfsagður hlutur. Fyrir því verður minni hlutinn að beygja sig. Ef hann gerði það ekki, og gæti sagt sig úr félagi þess vegna, kæmist alt í sundrung og enginn félagsskapur væri hugsanlegur.

Hv. 2. þm. Skagf. hélt því fram, að við hugsuðum að eins um hagsmuni safnaðarbrotanna eða þeirra, er eftir eru í þjóðkirkjunni. En það er undarlegt, að hv. þm., jafn góðviljaður maður, skuli telja eitthvað athugavert við það, eða þykja það ískyggilegt af okkar hálfu. Ef þetta væri ekki gert, sem frumv. fer fram á, þá væri það sama sem að gera söfnuðunum ókleyft að viðhalda kirkjunum. Allir geta farið nærri um, hvernig ganga mundi að afla söfnuðunum lána, sem oft þarf á að halda, t. d. til kirkjubygginga, ef allir safnaðarlimir væri ekki skyldir til að annast greiðslu þess, en gætu smeygt því fram af sér, hvenær sem þeim þóknast, með því að fara úr þjóðkirkjunni.

Þá þótti hv. 2. þm. Skagf. það galli, að þessi skylda skyldi ekki ná til allra, sem úr þjóðkirkjunni fara. En hví kemur hann og hv. 5. kgk. þm. þá ekki með br.till., er bæti úr þessu. Það var töluvert talað um þetta atriði í nefndinni, en niðurstaðan varð, að þessu yrði ekki öðruvísi fyrirkomið á heppilegan hátt.

Um br.till. get eg skírskotað til orða hv. 4. kgk. þm. (Stgr. J.) Ef meta ætti afgangseignir kirkjunnar, yrði auðvitað að meta hæfilegt álag á hana og gæti þá oft reynst svo, að kirkjan ætti ekkert afgangs.

Það er auðvitað að við höfum hag þjóðkirkjunnar fyrir augum og er sjálfsagt að þing og þjóð veiti henni þá vernd, er stjórnarskráin skyldar til og skipar að veita henni.