09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

54. mál, strandgæsla

Sigurður Gunnarsson:

Eg ætla ekki að fara neitt að mótmæla þessari tillögu, það er síður en svo. Strandgæzlan er ónóg bæði á Vestfjörðum og annarsstaðar, yfirgangur botnvörpunga er mikill og þá ekki hvað sízt í veiðistöðvunum fyrir norðan Snæfellsjökul. Þar má segja, að atvinnuvegur 1200 manna sé í veði, því eins og kunnugt er, eru fiskiveiðar aðalatvinnuvegurinn þar. Botnvörpungar eru þar hrönnum saman, einkum á tímabilinu, sem til er tekið í þingsályktunartillögunni, frá 1 sept.—-1. marz. Varðskipið sést þar heldur aldrei og finst mér því till. hv. flutnm. (Sk. Th.) eigi nógu víðtæk. Hv. flutnm. getur ef til vill sagt, að eg hefði þá átt að koma með viðaukatillögu og skal eg játa, að svo hefði átt að vera. En eg hefi verið vesall undanfarna daga og því ei tekið eftir till. þessari fyr en orðið var of seint að koma með viðaukatillögu.

Eg vil því mælast til þess við háttv. flutnm. (Sk. Th.) að hann taki till. út af dagskrá í þetta sinn, svo mér gefist tími til að koma með viðaukatillögu og vona, að hann hafi ekki á móti að verða við þessari ósk minni.