10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

55. mál, bréfhirðing og aukapóstar

Flutnm. (Skúli Thoroddsen):

Þessi þingsályktunartillaga ber það með sér, hvers efnis hún er. Hún er til orðin af því, að á sýslufundi Norður-Ísfirðinga var samþykt till. í þessa átt í febr. í vetur, eftir áskorun frá hlutaðeigandi hrepp, og var síðan skorað á mig, sem þingmann kjördæmisins, að koma þessu á framfæri hér í þinginu.

Það má nú segja, að þegar um þetta er að ræða, að fá nýja bréfhirðingu, þá mætti snúa sér beint til póststjórnarinnar, en almenningur hefir nú betri trú á því að snúa sér til þingsins. Það liggur líka í augum uppi, að þegar um það er að ræða, að póstmeistari geri eitthvað, sem hefir fjárútlát í för með sér, þá álítur hann sér það heimilla en ella, ef hann hefir samþ. þingsins að bakhjalli.

Það má líka geta þess, að það er orðið mjög mannmargt í Bolungarvík; þar munu vera 1200—1300 manns, og á vorvertíðinni enn fleira, því að þá sækir þangað fólk úr öðrum sýslum, Barðastranda-, Stranda-, Dala- og jafnvel Húnavatnssýslu.

Annars skal eg ekki fjölyrða um þessa tillögu, en vona að háttv. deild taki henni vel.