16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Sigurður Stefánsson:

Eg hafði hugsað mér að taka það fram, er hv. ráðherra benti á. Eg álít, að með þessari br.till. sé mönnum gefið undir fótinn að segja sig úr þjóðkirkjunni í því skyni að hafa hag af því. Þar sem svo stendur á, að kirkja á í sjóði og þarf að byggja kirkjuna, geta menn verið því mótfallnir af þessari ástæðu, og ef þeir fá ekki ráðið við það, segja þeir sig úr henni og fá þá úr sjóðnum, sem verja átti seinna til kirkjubyggingar.

Hv. 5. kgk. þm. (L. H. Bj.) sagði, að við, þessir „geistlegu“ herrar í nefndinni, sæjum að eins aðra hliðina á þessu máli, og værum steinblindir á öðru auganu. Sjálfur virðist hann þó skoða málið eingöngu frá sjónarmiði þeirra manna, sem úr kirkjunni fara. En hverjir eru það, sem 45. gr. stjórnarskrárinnar talar um að vernda? Eru það ekki þeir, sem eftir eru? Það eru ekki þeir, sem fara úr þjóðkirkjunni, það er einmitt brotið, sem eftir er. Hv. þm. talaði mikið um það í öðru máli, er var hér til umræðu á dögunum, að menn ættu fremur að líta á hagsmuni landsjóðs, en hagnað einstaklinganna. En nú ber hann hagsmuni einstaklinganna fyrir brjósti, en gætir ekki gagnsmuna safnaðanna. Það er ærin mótsögn í milli þess, er hann segir nú, og hann sagði þá. Hann talaði um að nefndin væri „methodulaus“ í sínum „galskab“. En það er ekki heldur nein „methoda“ í hans „galskab“.

Þá sagði hv. sami þm. (L. H. Bj.), að það gæti numið um 100 krónum, er menn yrðu að borga. Þetta eru hinar mestu öfgar. Engin kirkja hér á landi er svo skuldug, að slíkt geti komið til nokkurra mála. Sú kirkja, sem mun vera skuldugust nú, er Húsavíkurkirkja. Eftir því, sem hv. 4. kgk. þm. (Stgr. J.) sagði frá í nefndinni, yrðu það 14 kr., er kæmi á mann. Þetta eru nú öll ósköpin. Sú kirkja skuldar 7 þúsund krónur.

Frumvarpið eins og það kom frá nefndinni, miðar til þess að vernda hag þjóðkirkjunnar, eins og skilt er samkv. 45 gr. stjórnarskrárinnar. Það á að koma í veg fyrir, að einstakir menn geti svift kirkjusjóðina þeim einu tekjum, sem þeir eiga tilkall til. Því að síðan lögin um sóknargjöld frá 1909 komu í gildi, hafa kirkjur engar tekjur aðrar en þessi kirkjugjöld safnaðarmeðlimanna. Öllum öðrum tekjum hefir kirkjan verið rænd, og nú á einnig að kippa burt allri trygging fyrir því, að hún geti haldið þessum tekjum, því að ef breytingartill. á þingskj. 214 verður samþykt, má búast við, að sumar kirkjur kunni að missa mestallar tekjur sínar en eigendurnir standa uppi með skylduna eina til að halda þeim við. Verði frumvarp þetta felt, getur svo farið, að bændakirkjueignirnar í landinu falli stórum í verði og einstökum mönnum því gert stórtjón.

Okkur, sem erum prestar hér í deildinni hefir verið brugðið um það, að við héldum þessu máli fram, frumvarpinu á þingskj. 207, af blindu fylgi við mál kirkjunnar og eigin hagsmunavon. En því neita eg alveg. Málið kemur okkur ekkert við sem prestum, tap kirkjunnar kemur ekki niður á okkur, það kemur niður á landsjóði, að því er til landskirknanna kemur, og á eigendum bændakirknanna, að því er til bændakirknanna kemur

Eg lít svo á, að ef breytingartill. verður samþykt, þá gefi þingið undir fótinn lágum hvötum einstaklinganna til að nota tækifærið og hlaupa burt úr þjóðkirkjusöfnuðunum í gróða skyni, en þeim til stórtjóns, sem eftir eru í þjóðkirkjunni, sem löggjöf og stjórn á þó að vernda.